4 atkvæði bárust 20 sekúndum of seint

Elliði Vignisson tók til í skrifborðinu sínu fyrir helgina.
Elliði Vignisson tók til í skrifborðinu sínu fyrir helgina. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum nær aðeins inn þremur mönnum í bæjarstjórn og er meirihlutinn því fallinn. Elliði Vignisson, núverandi bæjarstjóri, var í fimmta sæti listans og nær ekki kjöri. Aðeins vantaði sex atkvæði upp á til að flokkurinn héldi meirihluta sínum, en hann fékk 45,4 prósent atkvæða. Svo mjótt var á munum að endurtelja þurfti atkvæðin.

H-listinn Fyrir Heimaey fékk 34,2 prósent atkvæða og fær þrjá bæjarfulltrúa, en Eyjalistinn fékk 20,3 atkvæði og einn bæjarfulltrúa.

„Það sem gerir þetta kannski enn broslegra er að fjögur atkvæði sem við sóttum í Valhöll bárust 20 sekúndum of seint. Það stóð 22:00 á síma formanns kjörstjórnar þegar þau atkvæði bárust. Þetta verður ekki tæpara heldur en þetta, en þetta er bara lífið,“ segir Elliði Vignisson í samtali við mbl.is.

Aðeins vantaði sex atkvæði upp á að Sjálfstæðisflokkurinn héldi meirihluta …
Aðeins vantaði sex atkvæði upp á að Sjálfstæðisflokkurinn héldi meirihluta sínum.

Hann hlær þegar hann er spurður hvort hann sé nú hættur í pólitík. „Ég sá nú bara fyrstu síðustu tölur fyrir tíu mínútum, en ég get sagt þér það að ég tók til í skrifborðinu mínu fyrir helgina. Við vissum að það yrði á brattann að sækja. Við vissum að tólf af fjórtán frambjóðendum H-listans eru flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Við vissum það líka að þau höfðu stuðning oddvita okkar í þingflokknum, þannig það var alltaf ljóst að það yrði á brattann að sækja,“ segir Elliði, en niðurstaðan kemur honum því ekki á óvart.

Hann viðurkennir þó að þetta séu vonbrigði. „Auðvitað er þetta ekki það sem við stefndum að en þetta var það sem við bjuggumst alveg eins við. Eitt hefur rekið annað í þessu og ekki verið okkur hliðhollt.“

„Ég bjóst ekki við þremur mönnum“

Íris Róbertsdóttir, oddviti framboðsins Fyrir Heimaey, er að vonum ánægð með niðurstöðuna sem er betri en hún þorði að vona. „Við erum rosalega glöð, við náum inn þremur mönnum í bæjarstjórn sem er stórkostlegt. Þetta ákall um breytingar sem við töluðum fyrir hefur greinilega fengið góðan hljómgrunn. Við hlökkum bara til að takast á við þetta verkefni.“

Íris segir markmiðið hafa verið að ná tveimur mönnum inn í bæjarstjórn og niðurstöðurnar eru því fram úr björtustu vonum. „Ég bjóst ekki við þremur mönnum, markmiðið okkar var tveir, en við fundum fyrir góðum meðbyr og stemningunni í samfélaginu. Við erum bara óendanlega glöð og þakklát fyrir traust sem okkur er sýnt.“

Aðspurð segir hún þau ekki farin að leiðan hugann að meirihlutasamstarfi en Eyjalistinn er í raun í lykilstöðu með einn bæjarfulltrúa. Leiða má líkur að því að þeir tveir flokkar tali fyrst saman. „Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að gefa það út að ef þeir næðu ekki meirihluta þá myndu þeir vera í minnihluta, en ég er ekki komin svona langt. Ég er ennþá að átta mig á fréttunum.“

mbl.is