Þarf að koma rekstrinum í rétt horf

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Hari

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is að nýrra stjórnenda Vatnajökulsþjóðgarðs bíði það verk að koma rekstri stofnunarinnar í rétt horf. Capacent vann úttekt á rekstri þjóðgarðsins og þar var dregin upp dökk mynd af stöðunni, en úttekin birtist á sunnudag.

Rekstrarhalli þjóðgarðsins var 190 milljónir króna á síðasta ári og þá framúrkeyrslu má samkvæmt úttekt Capacent að hluta til rekja til samskiptavanda og trúnaðarbrests í yfirstjórn þjóðgarðsins. Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs hafa látið af störfum og nýtt fólk er tekið við.

Guðmundur Ingi segir að úttekt Capacent hafi staðfest að afkoma og rekstur þjóðgarðsins hafi ekki verið í viðunandi horfi. Hann hyggst ráðast í úrbætur og segir að þegar hafi verið tekið á stjórnunarþætti stofnunarinnar.

„Ég mun setja sérstakt fjármagn í að styrkja miðlæga þjónustu með ráðningu starfsmanns með góða þekkingu á málefnum þjóðgarða til stuðnings nýjum framkvæmdastjóra,“ segir Guðmundur Ingi í svari sínu og bætir við að sá starfsmaður muni bætast í hóp mjög færs fagfólks á sviði náttúruverndar, sem fyrir sé hjá stofnuninni.

Ráðherra bindur vonir við að mannabreytingar leiði til þess að sá samskiptavandi sem úttekt Capacent varpaði ljósi á lagist.

„Í þjóðgarðinum vinnur nú þegar samhentur hópur fagfólks sem heldur uppi náttúruverndarstarfi á mjög stóru svæði. Ég trúi og treysti á það fólk. Samskiptavandamál koma upp á öllum vinnustöðum og mikilvægt að vinna úr þeim strax og áður en þau vinda upp á sig,“ segir Guðmundur Ingi.

Spurður um hvort einungis sé hægt að kenna samskiptavanda á milli framkvæmdastjóra og stjórnar um það að skuldbindingar þjóðgarðsins hafi fram úr hófi segir ráðherra að almennt virðist ekki hafa verið haldið nægilega vel utan um fjármál Vatnajökulsþjóðgarðs, en samskiptavandi hafi ekki bætt úr þeirri stöðu.

Skoða væntanlega flutninginn til Fellabæjar

Í úttekt Capacent var fjallað um flutning höfuðstöðva stofnunarinnar til Fellabæjar á Fljótsdalshéraði, hann sagður hafa verið illa undirbúinn og að óhagræði hefði skapast vegna flutningsins, m.a. vegna þess að fjármálastjóri og bókari þjóðgarðsins eru ekki starfandi á sömu starfstöðinni. Guðmundur Ingi segir að nýir stjórnendur muni væntanlega taka þessar ábendingar Capacent til skoðunar.

Nýr stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs verður skipaður á næstu vikum, að sögn ráðherra, en á meðan gegnir Guðrún Áslaug Jóns­dótt­ir, varaformaður stjórnar, störfum stjórnarformanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert