Tekist á um vélabrögð í Hæstarétti

Úr dómsal í morgun.
Úr dómsal í morgun. mbl.is/Alexander

Tekist var á um merkingu orðanna „véla“ og „fasteignabrask“ í Hæstarétti í morgun þegar tekið var fyrir mál Bergvins Oddssonar, fyrrverandi formanns Blindrafélagsins, gegn fyrrverandi stjórnarmönnum félagsins, þeim Halldóri Sævari Guðbergssyni, Baldri Snæ Sigurðssyni, Rósu Maríu Hjörvar, Lilju Sveinsdóttur, Guðmundi Rafni Bjarnasyni og Rósu Ragnarsdóttur.

Bergvin var formaður Blindrafélagsins frá árinu 2014 og þar til stjórn félagsins samþykkti vantraust á hann í september 2015. Í vantraustsyfirlýsingunni sagði að Bergvin hefði „vélað ungan félagsmann [Blindrafélagsins] til að leggja allt sitt sparifé í fasteignabrask honum tengt“.

Bergvin stefndi stjórnarmönnum fyrir ærumeiðandi ummæli og krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og dæmdi héraðsdómur Bergvin í vil í júlí í fyrra. Þá var stjórnarmönnunum fyrrverandi gert að greiða Bergvin 900 þúsund krónur í miskabætur með vöxtum og 750 þúsund krónur í málskostnað.

Sagði Bergvin hafa haft af sér fé

Forsaga málsins er sú að Bergvin átti ásamt föður sínum fasteignafélag. Ungur maður, sem nýverið hafði misst nær alla sjón og sat sem varamaður í stjórn Blindrafélagsins leitaði ráða hjá Bergvin um fjárfestingnar, en maðurinn, sem var 19 ára á þeim tíma, átti sparifé sem hann vildi ráðstafa.

Bergvin Oddsson.
Bergvin Oddsson. Kristinn Ingvarsson

Í málflutningi lögmanns stjórnarinnar kemur fram að Bergvin hafi ráðlagt drengnum að leggja féð í eigið fasteignafélag, sem hann gerði. Hann leitaði síðar til Bergvins og hafði áhyggjur af rekstri fasteignafélagsins sem hann taldi ekki vera í samræmi við það sem hann hafði ætlað.

Taldi hann að sér hefði einungis borið að leggja fram fé við stofnun fasteignafélagsins en að ekki yrði um frekari greiðslur að ræða af hans hálfu enda hefði hann þegar ráðstafað öllu sparifé sínu.

Þegar Bergvin hafi síðan krafið hann um tvær greiðslur í júlí og ágúst 2015 og boðað frekari fjárútlát hafi hann orðið áhyggjufullur út af fjárframlagi sínu og viljað losna úr félaginu, en Bergvin hafi ekki veitt honum fullnægjandi svör. Leitaði drengurinn þá til stjórnar Blindrafélagsins með fyrrgreindum afleiðingum

Drengurinn var látinn leggja upphæðina inn á persónulegan reikning Bergvins en ekki félagsins og sagði lögmaður stjórnarinnar að engar trúverðugar skýringar hefðu fengist á þeim gjörningi.

Markmiðið að hrekja Bergvin úr starfi

Í fundargerð stjórnar Blindrafélagsins frá september 2015, þar sem vantrauststillagan á Bergvin var borin upp og samþykkt, er sagan rakin en Bergvin sat einnig þann fund og greindi frá sinni hlið á málinu. Hann hafði þó eðli málsins samkvæmt ekki gögn til að leggja fram á staðnum, en fór heldur ekki fram á frest til að leggja fram slík gögn og sagðist ekki telja að þetta kæmi stjórn Blindrafélagsins við. Samdægurs var vantraust á Bergvin sem formann samþykkt.

Í málflutningi lögmanns Bergvins kom fram að Bergvin hefði verið kjörinn formaður árið 2014 og haft þar betur gegn Rósu Maríu Hjörvar með einu atkvæði, en hún átti einmitt sæti í stjórn félagsins. Ljóst væri að öfl innan Blindrafélagsins hefðu viljað losna við Bergvin og hafi yfirlýsing stjórnarinnar verið sett fram með það að markmiði að kasta rýrð á æru stefnda og hrekja hann frá starfi.

Þá sagði lögmaður Bergvins að ekki mætti skilja sögnina véla öðruvísi en svo að hún feli í sér lögbrot og því hafi stjórnin ásakað Bergvin um lögbrot. Ekki væri um gildisdóm að ræða. Máli sínu til stuðnings vísaði lögmaðurinn í íslenska orðabók þar sem sögnin er sögð merkja svíkja eða pretta.

Þess má geta að í Jónsbók er ákvæði um kvennagiftingar og segir þar „vélakaup skal at vettugi hafa“.

Þessu andmælti Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður stjórnar. Hann sagði málsatvik óumdeild. Bergvin hefði reynt að fá drenginn til að leggja fé í fasteignafélag sitt, en orðalagið „véla til fasteignabrasks“ væri einfaldlega gildishlaðin lýsing, sett fram til að lýsa vanþóknun á gjörningnum.

Máli sínu til stuðnings vísaði lögmaðurinn í aðra meiðyrðadóma sem hafa fallið í Hæstarétti svo sem árið 2001 þegar dómstóllinn sýknaði mann sem hafði sagt annan mann stunda „skattasniðgöngu“ enda hefði það orð enga lagalega merkingu. Sama gilti um bæði orðin véla og fasteignabrask.

Bergvin bauð sig aftur fram til formennsku í mars árið 2016 og fékk 25% atkvæða en Sigþór U. Hallfreðsson var kjörinn formaður með 60% atkvæða og hefur gegnt embættinu síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert