Dansað til styrktar 11 manna fjölskyldu

Sigrún Elísabeth er ansi rík að eiga tíu börn.
Sigrún Elísabeth er ansi rík að eiga tíu börn. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Mig langaði að hjálpa henni, þetta er búið að vera ofboðslega erfitt,“ segir Oddrún Ólafsdóttir, frænka Sigrúnar Elísabethar og barnanna hennar sem lentu í alvarlegu bílslysi á Vesturlandsvegi þann 4. júní, sem stendur fyrir styrktartíma í zúmba 17. júní.

Sigrún var á ferðinni með sjö af tíu börnum sínum og systursyni sínum þegar ökumaður annarrar bifreiðar lenti framan á þeim í framúrakstri. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar lést, en Sigrún og börnin slösuðust. Sigrún er nýútskrifuð af gjörgæslu og þrjú börn hennar slösuðust einnig alvarlega. Auk þess gereyðilagðist bíllinn þeirra.

Oddrún ásamt Önnu Claessen sem einnig mun kenna í zúmbatímanum.
Oddrún ásamt Önnu Claessen sem einnig mun kenna í zúmbatímanum. Ljósmynd/Aðsend

„Hún verður að hafa bíl,“ segi Oddrún, en Sigrún er í mastersnámi í sálfræði og býr bæði í Reykjavík og í Eyjanesi í Hrútafirði og keyrir á milli með börnin. Hún var nýbyrjuð í sumarvinnu og segir Oddrún að nú geti hún ekki unnið heldur verði að sinn fjölskyldunni. 

Oddrún segir fjölskylduna hafa rætt að leggja pening til sjálf en svo ákváðu þau að prófa að setja af stað söfnun. „Fólk er bara dásamlegt, það er svo mikið af fallegu og vel innrættu fólki þarna úti.“

Zúmbatími til styrktar fjölskyldunni verður haldinn klukkan 10 í World Class í Laugum 17. júní. 2.000 krónur kostar í tímann, en þau sem ekki komast en vilja leggja fjölskyldunni lið geta lagt inn á reikning 0545-14-408963, kt. 100754-3129.

Sjálf er Oddný mikið fyrir zúmba, kennir meðal annars vatnszúmba og stefnir að því að hafa annan viðburð með vantszúmba á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert