Voru beðnir um að eyða myndskeiðinu

Jóhann Jóhannsson, Fjalar Scott og Ingólfur Vestmann Ingólfsson eru í …
Jóhann Jóhannsson, Fjalar Scott og Ingólfur Vestmann Ingólfsson eru í fimmta gír í Moskvu. mbl.is/Eggert

„Það var einhver smá vatnsleki á hótelinu okkar,“ segir Jóhann Jóhannsson við mbl.is. Hann og félagar hans, Fjalar Scott og Ingólfur Vestmann Ingólfsson, tóku myndskeið af leka á hóteli þeirra í Moskvu en voru samstundis beðnir um að eyða því. Félagarnir verða á vellinum þegar Ísland mætir Argentínu á HM í knattspyrnu á morgun.

„Konan í móttökunni var ekki ánægð með myndskeiðið og vildi sjá okkur eyða því úr símanum. Við gerðum það. Maður verður að hlýða!“ segir Jóhann og hlær.

Hann bætir við að hótelstarfsmaðurinn hafi viljað skoða myndir úr símum þeirra og þeir hafi því engar myndir eða myndskeið sem sýni lekann.

Allir elska Íslendinga í Moskvu

Jóhann segir að fyrir utan þetta skondna atvik sé dvölin frábær og spenningurinn fyrir morgundeginum magnist með hverri mínútunni. „Þetta er frábært. Íslendingar eru elskaðir og dýrkaðir. Fólk streymir að okkur þegar það sér treyjurnar og hvetur Ísland til dáða. Allir Rússar tala um að þeir styðji Ísland.

Margir virðast sjá mikil líkindi milli þess að mæta Argentínu í fyrsta leik á HM og að mæta Portúgal í fyrsta leik á EM en Jóhann telur að úrslitin á morgun verði þau sömu og í fyrsta leik í Frakklandi fyrir tveimur árum.

„Þetta verður frábært á morgun en leikurinn fer 1:1. Þeir skora fyrst en svo verður þetta æðislegt, við skorum og höldum þessu. Við gætum jafnvel meira að segja unnið þá,“ segir Jóhann og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert