„Allir voru geðveikt hræddir“

Boeing 737-800-þotur frá Norwegian Air á Arlanda-flugvellinum í Stokkhólmi.
Boeing 737-800-þotur frá Norwegian Air á Arlanda-flugvellinum í Stokkhólmi. AFP

Halldóra Ana Purusic og kærasti hennar voru í flugvél Norwegian Air frá Keflavík til Madridar þegar vélin þurfti að nauðlenda í Birmingham á Englandi eftir um tveggja klukkustunda flug.

Flugvélin tók á loft klukkan 9.30 í morgun.

Að sögn Halldóru tilkynnti flugmaðurinn að vegna tæknibilunar þyrfti hann að lenda vélinni í Birmingham og eftir að hafa sveimað þar yfir í um klukkutíma tilkynnti áhöfnin ferðamönnunum að búa sig undir verulega harkalega lending.

„Allir voru geðveikt hræddir og byrjuðu að gráta,“ segir Halldóra.

Eftir að vélin lenti bremsaði hún og tók í framhaldinu að hristast. Hún segir að í smá stund hafi litið út fyrir að flugmaðurinn væri að missa stjórn á vélinni.

Þegar vélin hafði loksins stöðvast á flugbrautinni kom vond lykt inn í vélina

Enginn mátti standa upp úr sæti sínu til að byrja með en eftir um 30 til 40 mínútur var fólki hleypt á salernið.

Þegar Halldóra gekk út úr flugvélinni á flugbrautinni í Birmingham sá hún slökkviliðsbíla við vélina og sá að tvö dekk vélarinnar á einum standi höfðu sprungið. Svo virðist sem kviknaði hafi í dekkjunum við lendingu, enda var froða „úti um allt“ eins og hún segir í samtali við blaðamann og bætir við að vélin hafi hallað.

Eftir á fengu farþegar þær skýringar að tæknibilun hafi orðið í flugvélinni sem tengdist lendingarbúnaðinum.

Hún segir að 6 til 7 Íslendingar til viðbótar hafi verið um borð í vélinni en megnið hafi verið Spánverjar.

Sumir sem voru hvað hræddastir í vélinni þurftu á aðstoð að halda eftir að hún lenti. Sjálf segist hún ekki hafa verið hrædd. Hún sé bjartsýn að eðlisfari, auk þess sem kærastinn hennar hafi verið henni til halds og trausts.

Farþegarnir úr vélinni hafa nú verið á flugstöðinni í Birmingham í um sjö klukkustundir og segir Halldóra að litlar upplýsingar hafi fengist um hvað gerðist. Um tveggja til þriggja tíma seinkun varð á öðrum flugferðum á flugvellinum vegna atviksins og telur Halldóra að hún og kærastinn komist ekki til Madridar fyrr en á morgun.

Uppfært kl. 20.22:

Fram kemur í frétt norska vefmiðilsins ABCnyheder  að 152 hafi verið um borð í vélinni og að enginn hafi slasast.

Upplýsingafulltrúi Norwegian Air segir að flugstjórinn hafi ákveðið að framkvæma öryggislendingu í Birmingham vegna þess að eitt dekk vélarinnar hafði sprungið.

Allt hafi gengið vel við lendinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert