Mat á afkastagetu „ónákvæmt“

Talsverður kostnaður við rekstur Hellisheiðarvirkjunar hefur orðið til vegna ónákvæms …
Talsverður kostnaður við rekstur Hellisheiðarvirkjunar hefur orðið til vegna ónákvæms mats á afkastagetu svæðisins. mbl.is/Golli

Í sjálfbærnimati fyrir Hellisheiðarvirkjun eru gerðir annmarkar við ákvörðunina að byggja virkjunina. Þá er tekið fram að afkastageta og umhverfisáhrif hafi verið vanmetin sem leitt hafi til aukinna fjárahagsskuldbindinga sem draga úr arðsemi virkjunarinnar, en reynt hefur verið að bæta úr stöðunni undanfarin ár með ágætum árangri.

Í sjálfbærnimati fyrir Hellisheiðarvirkjun segir um ákvörðunina að byggja virkjunina:

„Upphaflegt mat á afkastagetu og umhverfisáhrifum [Hellisheiðarvirkjunar] var ónákvæmt og var ekki tekið nægilegt tillit til óvissuþátta sem hefur valdið verulegum og ófyrirséðum útgjöldum, en þetta hefur dregið úr arðsemi fjárfestingarinnar. Stöðugt er fylgst með orkuöflunargetu og gerð líkön. Þekking á sviði nýtingar hefur aukist, en til staðar er enn óvissa vegna kostnaðar sem fylgir borunum sem gerðar eru til þess að viðhalda nægjanlegri gufu til orkunýtingar í virkjuninni. Á sama tíma hefur einnig þekking á [umhverfis]áhrifum aukist, en til staðar er ennþá óvissa er tengist kostnaði við úrvinnslu gastegunda og affallsvatns.“

Verulegar umbætur hafa átt sér stað

Almennt hefur sjálfbærnismatið skilað jákvæðri niðurstöðu um rekstur Hellisheiðarvirkjunar, en það má rekja til verulegra umbóta í þeim þáttum sem skapað hafa umrædda erfiðleika í rekstri virkjunarinnar.

Þá er tekið fram að frá árinu 2009 hefur velta aukist um 74% til ársins 2017 og eiginfjárhlutfall farið úr 14% í 44% á sama tíma. „Við getum ekki bætt úr þeirri ákvörðun sem var tekin, en héðan í frá erum við á betri stað,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, í samtali við mbl.is.

Unnið hefur verið að því að draga úr útblæstri brennisteinsvetnis frá virkjuninni, en bæði hefur verið í þróun aðferð til að binda koltvíoxíð og binda brennisteinsvetni. Þá hefur losun brennisteinsvetnis minnkað um 2/3. „Þetta hefur bara verið til fyrirmyndar, eins og til að mynda í brennisteinsmálið,“ segir Bjarni og bendir á þróunarverkefnið sem snýr að því að „binda efnið í stein og koma því aftur niður þar sem það á heima.“

Í sjálfbærnismatinu segir einnig að dregið hefur úr skjálftum vegna niðurdælingu, þó finnast enn smærri skjálftar á Húsmúlasvæðinu vegna þessa.

Bjarni segir starfsfólkið hafi lagt mikið á sig til þess að mæta þeim áskorunum sem hafa komið til vegna Hellisheiðarvirkjunar. „Það er mikill metnaður hjá fólkinu hérna. Hér er mikið af nýju ungu fólki og við getum ekki tekið á okkur syndir feðrana. Við verðum að taka stöðunni eins og hún er og vinna sem best úr því,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert