Erlendur ökumaður áfram í farbanni

mbl.is/Hjörtur

Farbann Héraðsdóms Suðurlands yfir bandarískum ferðamanni sem lenti í árekstri á Suðurlandsvegi 16. maí var staðfest í Landsrétti í gær. Manninum, sem er bandarískur ríkisborgari, er meinuð för úr landi til 11. júlí.

Áreksturinn varð á Suðurlandsvegi, skammt vestan gatnamóta við Landeyjahafnarveg í Rangárþingi eystra, með þeim afleiðingum að ökumaður bifreiðarinnar sem kom úr gagnstæðri átt, kona á miðjum aldri, lést nær samstundis.

Bíl­arn­ir rák­ust sam­an á tví­breiðri brú yfir Sík­inu, vest­an við af­leggj­ar­ann að Land­eyja­hafn­ar­vegi.

Maðurinn neitar sök

Maðurinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi og stendur rannsókn málsins yfir. Hann neitar sök og í skýrslutöku hjá lögreglu sagðist maðurinn hafa ekið á sínum vegarhelmingi en bifreiðin sem á móti kom hafi virst stjórnlaus og hann hefði ekki getað forðað árekstri þar sem brú væri á veginum.

Í niðurstöðu Landsréttar kom fram að niðurstaða bíltæknirannsóknar hefði verið sú að orsök slyssins yrði ekki rakin til ástands ökutækjanna, heldur hafi niðurstaða rannsóknar leitt í ljós að maðurinn hefði ekið bifreið sinni inn á öfugan vegarhelming og í veg fyrir hina bifreiðina með þeim afleiðingum að áreksturinn varð.

Í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands kom jafnframt fram til stuðnings farbanninu að framburður mannsins væri í veigamiklum atriðum í ósamræmi við önnur rannsóknargögn lögreglu um atvik slyssins og leiða mætti líkur að því að hann kynni að reyna að leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar ef til þess kæmi.

Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði varðandi lengd farbannsins og taldi að úrskurða bæri manninn í styttra farbann, eða til 30. júní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert