Hafði merkjaskipti við löggu í Volgograd

Friðbjörn Bragi Hlynsson, Jón Örn Haraldsson og Magnea Dröfn Hlynsdóttir …
Friðbjörn Bragi Hlynsson, Jón Örn Haraldsson og Magnea Dröfn Hlynsdóttir hress saman í Volgograd. mbl.is/Eggert

Jón Örn Haraldsson lögreglumaður er í Volgograd í Rússlandi þar sem hann ætlar að sjá leik Íslands og Nígeríu á morgun. Eitt það fyrsta sem hann gerði eftir komuna til Volgograd var að skiptast á lögreglumerkjum, eða svokölluðum „pötchum“, við lögreglumann í borginni.

„Það er svona áhugamál hjá sumum löggum að reyna að skiptast á „pötchum“ og að eiga frá öllum löndum,“ segir Jón Örn og bætir því við að oft séu slík skipti skipulögð fyrirfram í gegnum alþjóðasamtök lögreglumanna. Merkjaskiptin í Volgograd urðu þó fyrir algjöra tilviljun, en Jón hafði ætlað að lauma sér inn á lögreglustöð og fá merki þar.

„Þetta kom þannig til að við vorum að fara frá lestarstöðinni og á leið upp á hótel og vorum að reyna að læra á leigubíla-app í símanum og hittum rússneskt fólk sem hjálpaði okkur og pantaði leigubíl. Síðan var það einhver svindlari sem kom og hann vildi ekki taka reiðufé heldur bara kort og svona og það varð einhver reikistefna hjá honum og þeim sem voru að hjálpa okkur.

Jón Örn, Magnea og Friðbjörn ásamt lögreglumanninum rússneska (t.v.) og …
Jón Örn, Magnea og Friðbjörn ásamt lögreglumanninum rússneska (t.v.) og rússneska parinu sem kom þeim til aðstoðar við lestarstöðina. Ljósmynd/Aðsend

Svo kom þarna lögreglumaður eiginlega bara af forvitni og spurði hvað væri í gangi og rússneska parið útskýrði það fyrir honum,“ segir Jón Örn.

Lögreglumaðurinn sá hvernig í pottinn var búið og ákvað að bjóða íslensku stuðningsmönnunum far upp á hótel í sínum einkabíl.

„Ég var með „patchann“ í bakpokanum hjá mér og sagðist ætla að láta hann fá hann og spurði hvort að hann ætti merki fyrir mig. Hann fór eitthvað að leita í bílnum sínum og síðan reif hann eiginlega bara utan af skyrtunni hjá sér einn „patcha“ og lét mig fá,“ segir Jón Örn, sáttur með að hafa bætt einu lögreglumerki í safnið sitt.

Merkið sem Jón Örn fékk frá rússneska lögreglumanninum.
Merkið sem Jón Örn fékk frá rússneska lögreglumanninum. Ljósmynd/Aðsend

Telur að Ísland vinni á morgun

Jón Örn og ferðafélagar hans voru fimm nætur í Moskvu, en náðu ekki að fá miða á leik Íslands og Argentínu síðasta laugardag og horfðu á leikinn á stuðningsmannasvæðinu þar.

„Við vorum nokkrir Íslendingar þar saman og hópur af Rússum fyrir aftan okkur sem studdu Ísland og svo nokkuð af Argentínumönnum sem þögðu eiginlega allan leikinn eftir að við vorum búin að jafna,“ segir Jón Örn.

Jón Örn og ferðafélagar með Nígeríumanni við styttuna risavöxnu sem …
Jón Örn og ferðafélagar með Nígeríumanni við styttuna risavöxnu sem gnæfir yfir Volgograd. Ljósmynd/Aðsenda

Jón Örn var á vappinu um Volgograd ásamt kærustu sinni Magneu Dröfn og Friðbirni Braga mági sínum er ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is rakst á þau. Hann segir að sér þyki mikið til borgarinnar koma.

„Þetta er alveg frekar stórfenglegt finnst mér, sérstaklega styttan hérna, heljarinnar mannvirki,“ segir Jón Örn, en þar segist hann hafa hitt mikið af Íslendingum í dag og að greinilega hafi margir verið með sama ferðaplanið í dag. Nígeríumennirnir virðast ekki jafn margir, en þó segir Jón að hann hafi séð nokkra í borginni í dag.

En hvernig fer leikurinn á morgun?

„Ég held að þetta fari bara 2-0 fyrir okkur, þægilegt. Við verðum aðeins minna með boltann, þannig viljum við hafa það. En við setjum tvö þægileg mörk,“ segir Jón Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert