Fólk hugi að lausamunum

Björgunarsveitir eru meðvitaðar um veðurspána og viðvörunina sem er í …
Björgunarsveitir eru meðvitaðar um veðurspána og viðvörunina sem er í gildi. mbl.is/Eggert

Búast má við hvassviðri eða stormi um landið austanvert í nótt og fram yfir hádegi á morgun með snörpum vindhviðum við fjöll, víða yfir 30 metrum á sekúndu en yfir 40 metrum á sekúndu á stöku stað, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

„Ekkert ferðaveður fyrir bifreiðar sem taka á sig mikinn vind. Fólk er beðið um að huga að lausum munum og sýna varkárni, en tjöld, garðhúsgögn og trampólín geta fokið. Einnig má búast við sandfoki. Um litla lægð er að ræða sem fer allhratt yfir landið, veðurspá getur því breyst hratt og mikilvægt að fylgjast með veðurspám,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Ekki sérstakur viðbúnaður

„Það er ekki sérstakur viðbúnaður nema að okkar björgunarsveitir eru meðvitaðar um veðurspána og viðvörunina sem er í gildi,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. Bendir hann fólki á að huga að lausamunum eins og garðhúsgögnum, grillum og trampólínum.

Gul viðvörun er í gildi og hefur Vegagerðin varað við stormi í nótt og framan af morgundegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert