Hjóla aftur fyrir Landsbjörg

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, tekur þátt í æfingu með …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, tekur þátt í æfingu með Slysavarnafélaginu Landsbjörg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á miðnætti hófst áheitasöfnun WOW Cyclothon en í ár er safnað fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg líkt og á síðasta ári. Söfnunin er í gangi fram yfir keppnina og lýkur laugardagskvöldið 30. júní. 

Hjólreiðakeppnin hefst á morgun þegar einstaklings og Hjólakraftsflokkar hefja leik klukkan 15 á planinu við bílaumboðið Öskju. Keppendur hjóla hringinn í kringum Ísland, um Hvalfjörð og yfir Öxi á innan við 72 tímum. Þátttakendur í ár eru 882 í 98 liðum. Frá upphafi WOW cyclothon hafa keppendur og aðstandendur þeirra safnað yfir 75 milljónum króna til stuðnings margra góðra málefna.

Í tilkynningu er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, að flugfélagið hafi verið mjög ánægt með árangur söfnunarinnar í fyrra og það sé frábært að geta styrkt Landsbjörg aftur og þeirra frábæra starf. Í fyrra söfnuðust yfir 20 milljónir króna. Liðin keppa sín á milli í áheitakeppni og hljóta liðsmenn sigurliðsins flugmiða með WOW air í vinning. Í fyrra sigraði lið CCP en þau söfnuðu 1.651.000 krónum.

 „Við erum afar þakklát fyrir að WOW air hafi ákveðið að styðja við félagið annað árið í röð með því að láta þau áheit sem safnast í keppninni renna í starf okkar eininga. Það er einmitt þannig að allt það fé sem safnast í ár fer óskipt í starf okkar björgunarsveita og slysavarnadeilda víða um land,“ er haft eftir Smára Sigurðssyni, formanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert