Team Skoda og Sena leiða í B-flokki

Keppendur á Kjósarskarðsvegi í gær.
Keppendur á Kjósarskarðsvegi í gær. Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon

Þegar fjórtán tímar eru liðnir frá ræsingu í B-flokki WOW Cyclothon leiða Team Skoda og Sena keppnina. Þau eru komin fram hjá Mývatni og eru enn hnífjöfn. Kolibri Cycling er í þriðja sæti, alveg að nálgast Mývatn og aðeins nokkur hundruð metrum þar á eftir er lið Decode XY í fjórða sæti.

Í A flokki eru Harðkjarna, Team Cannondale GÁP Elite og Airport Direct í efstu þremur sætunum, nýkomin fram hjá Mývatni. Fast á hæla þeirra fylgir lið Íslandsbanka Quattro sem óðum nálgast Mývatn.

Línur eru farnar að skýrast í einstaklingsflokki. Eiríkur Ingi Jóhannsson er með töluvert forskot á aðra keppendur. Þegar mbl.is heyrði í honum bílnum hans um klukkan tíu var hann hjá Skaftafelli.

Declan Brassil og Halldór Snorrason eru að nálgast Stafafell á Austurlandi. Eina konan í einstaklingsflokki, Elín V. Magnúsdóttir, er í fjórða sæti og er að nálgast Öxi. Þegar Elín lýkur keppni verður hún fyrsta konan til að klára WOW Cyclothon ein síns liðs. Einstaklingarnir eru nú búnir að hjóla í um 40 tíma.

Ný leið inn í Hvalfjörð hafði töluverð áhrif á keppnina í gær. Hjólað var Kjósarskarðsveg inn í Hvalfjörð en hluti leiðarinnar er grófur malarvegur. Nokkur lið freistuðust þess að þann hluta á keppnishjólum en þau lentu flest í að sprengja dekk fyrir vikið. Veðrið hefur leikið við keppendur hingað til og í morgun var slegið upp grilli á fyrir utan N1 á Akureyri í blíðskaparveðri, 17 gráðum og sól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert