Björgunarsveitir á fimmtíu stöðum

Frá upphafi hálendisvaktar árið 2016.
Frá upphafi hálendisvaktar árið 2016. mbl.is/Styrmir Kári

Hálendisvakt Landsbjargar er hafin þrettánda sumarið í röð. Björgunarsveitarmenn verða á þremur stöðum á hálendinu í sumar, í Landmannalaugum, Nýjadal á Sprengisandi og Drekagili norðan Vatnajökuls. Þá verður viðbragðsvakt í Skaftafelli, en það var tilraunaverkefni sem hófst síðasta sumar og þótti heppnast vel.

Af því tilefni er Safetravel-dagur björgunarsveitanna í dag, en Safetravel er slysavarnarverkefni á vegum Landsbjargar sem miðar að því að koma upplýsingum um öryggi á ferðalögum til ferðamanna.

Félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörg verða á 50 viðkomustöðum ferðamanna í dag, tjaldsvæðum, upplýsingamiðstöðvum, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Þingvöllum og á fleiri stöðum, að ræða við ferðamenn og fræða um ábyrga ferðamennsku

Ferðamenn eru hvattir til að skrá ferðaáætlun sína á heimasíðunni safetravel.is til að auðvelda leit lendi þeir í ógöngum. Í ár munu hálendisvaktarar í fyrsta sinn notast við spjaldtölvur en þannig geta ferðamenn skráð ferðaáætlun sína á staðnum, auk þess sem björgunarsveitir geta notað tölvurnar til að sýna ferðamönnum myndir, myndbönd eða annað efni.

Vegurinn um Sprengisand var opnaður í dag.
Vegurinn um Sprengisand var opnaður í dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hálendisvegir hafa margir hverjir opnað fyrr í ár en oft áður og er enn töluverður snjór á sumum gönguleiðum, sem gerir ferðalög erfiðari og hætt við að ferðamenn vanmeti aðstæður. Fyrr í vikunni greindi mbl.is frá því að björgunarsveitir hefðu lagt í tugi útkalla eftir að opnað var á fjallvegi að Landmannalaugum og Fimmvörðuhálsi. 

Fjallvegur F26 um Sprengisand inn í Bárðardal var opnaður í dag og viðbúið að álag á sveitirnar aukist enn með umferð um svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert