„Það hefur verið þaggað niður í öllum“

Plastbarkaaðgerðin fór fram á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð.
Plastbarkaaðgerðin fór fram á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Karolinska Institut

„Það hefur ekki mátt segja neitt og það hefur verið þaggað niður í öllum sem hafa viljað rannsókn á þessu máli, jafnvel haft í hótunum við þá,“ segir læknir sem ekki vill koma fram undir nafni í samtali við mbl.is um plastbarkamálið. Hann segir jafnframt þær ályktanir sem nefnd á vegum Háskóla Íslands og Landspítala draga af eigin skýrslu um málið ekki í samræmi við innihald hennar.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is úrskurðaði Ole Petter Ottesen, rektor Karólínsku stofnunarinnar í Svíþjóð, Tóm­as Guðbjarts­son, pró­fess­or við Há­skóla Íslands og yf­ir­lækn­i á Lands­pít­al­an­um, ábyrg­an fyr­ir vís­inda­legu mis­ferli og það kemur einnig fram í úrskurðinum að Óskar Einarsson læknir hafi van­rækt skyldu sína til þess að gera at­huga­semd­ir við áber­andi rang­færsl­ur í vís­inda­grein sem þeir báðir áttu aðild að.

Vísindagreinin snýr að tilraunaaðgerð sem gerð var á And­emariam Tek­les­en­bet Beyene árið 2011. Hann lést árið 2014, um þremur árum eft­ir ígræðslu plastbarka á Karólínska sjúkra­hús­inu í Svíþjóð.

Eft­ir and­látið vöknuðu ýms­ar efa­semd­ir um þá verk­ferla sem lágu að baki vís­inda­rann­sókn­un­um, sér­stak­lega vegna upp­lýs­inga frá lækni sem kom að meðhöndlun sjúklingsins í Svíþjóð og upp­ljóstraði um bresti í starfs­hátt­um læknanna.

Úrskurður á grundvelli þriggja þátta

Úrskurður rektors Karólínksu stofnunarinnar nær til þriggja þátta í málinu, en úrskurðurinn nær til vísindalegs starfs læknanna ekki athæfis læknanna í starfi sínu sem læknar. Niðurstaða rektors vísar til eftirfarandi atriða:

  1. Ósönn frásögn um ástand sjúklings í tilvísun Tómasar til Karólínska sjúkrahússins sem varð þess valdandi að hægt var að rökstyðja uppskurð sjúklingsins.
  2. Frásögn í vísindagreininni um ástand sjúklingsins mánuðina eftir aðgerðina, en á þeim tíma var hann til meðhöndlunar hjá Tómasi og Óskari á Landspítala. Þessi frásögn er sögð skálduð og sannleikanum hagrætt.
  3. Aðgerðaleysi þegar ljóst var hvert innihald vísindagreinarinnar var. Tómas og Óskar eru sagðir hafa vanrækt skyldu sína til þess að segja sig frá því að vera meðhöfundar greinarinnar þegar ljóst var að ósannindi voru í henni.

Munurinn sem gerður er á aðkomu Tómasar og Óskars byggir á því að Tómas hafði verið meðhöfundur þegar handrit greinarinnar var fyrst sent New England Journal of Medicine (NEJM), en Óskar var ekki meðhöfundur fyrr en eftir að greininni var hafnað af NEJM og grein send að nýju til vísindatímaritsins Lancet og var birt í því tímariti 2011.

Fjallað er um efnisatriði úrskurðarins í þeirri röð sem þau eru talin upp hér að ofan.

Skýrslur sammála en ólíkar ályktanir

Það vekur töluverða athygli að rektor Karólínsku stofnunarinnar byggir úrskurð sinn á skýrslu sænsku vísindasiðanefndarinnar sem er lítið frábrugðin þeirri skýrslu sem kynnt var í nóvember 2017 og var unnin af nefnd sem skipuð var af Háskóla Íslands og Landspítala vegna málsins. Höfundar íslensku skýrslunnar draga hins vegar aðrar ályktanir en rektor Karólínsku stofnunarinnar.

Skýrsla nefndar sem skipuð var af Háskóla Íslands og Landspítala …
Skýrsla nefndar sem skipuð var af Háskóla Íslands og Landspítala var kynnt í nóvember 2017. mbl.is/​Hari

Prófessor, sem óskar eftir því að koma ekki fram undir nafni, segir í samtali við mbl.is að nokkuð áberandi sé að niðurstöður nefndar Landspítala og Háskóla Íslands séu „mun mýkri en þær alvarlegu lýsingar sem eru að finna í skýrslunni sjálfri.“ Hann furðar sig á að ekki var gert meira úr málinu í kjölfar þeirrar skýrslu sem kynnt var í nóvember 2017.

„Ég held að það séu mjög margir þeirrar skoðunar að ályktanirnar sem eru dregnar af þeirri skýrslu séu allt of vægar. Það er gert til þess að bera í bætifláka fyrir þá sem framkvæmdu gjörninginn. Ef þú lest skýrsluna og sleppir ályktun nefndarinnar er þetta skelfileg lesning,“ segir ónafngreindi læknirinn.

Breytti tilvísun

Við rann­sókn sænsku vísindasiðanefndarinnar á plast­barka­máls­inu kem­ur fram að Tóm­as hafði frum­kvæði að inn­lögn sjúk­lings­ins á Karólínska sjúkrahúsinu í þeim til­gangi að minnka æxli hans með leysi. Seinna breytti Tóm­as til­vís­un sinni til sænskra lækna með þeim hætti að ástand sjúk­lings­ins virt­ist verra en raun bar vitni, að beiðni Paolo Macchi­ar­ini. Þar af leiðandi gat sjúk­ling­ur­inn und­ir­gengist barkaskipti.

Þetta kemur einnig fram í íslensku skýrslunni, en þar segir að „óskir Macchiarinis, sem hér að framan var vikið að, um að fá fram tilteknar yfirlýsingar frá Tómasi í þágu meðferðar málsins hjá siðanefnd virðast hafa verið settar fram til að blekkja Tómas þar sem ekki stóð til að sækja um formlegt leyfi siðanefndar. Eins og áður segir virðast yfirlýsingar Tómasar hafa verið notaðar í allt öðrum tilgangi.“

Nefndin sem skoðaði málið hér á landi ályktar að ekki hægt sé að fullyrða að Tómas beri ábyrgð á plastbarkaaðgerðinni vegna þessara blekkinga Macchiarini. Hins vegar er ekki frá því vikið að frásögn Tómasar um ástand sjúklingsins í umræddri tilvísun hafi verið röng, hvort sem hún var lögð fyrir umrædda siðanefnd eða ekki.

Nefndin segir að Tómas hafi ekki veitt fulla aðgæslu í samskiptum við Macchiarini og að yfirlýsingar hans séu „tæplega í samræmi við 11. gr. Læknalaga nr. 53/1988.“

Lýsingar frá Íslandi rangar

„Eftir aðgerðina er sjúklingurinn á Íslandi. Hann er ekkert hjá Macchiarini [leiðandi læknir og vísindamaður í ígræðslu plastbarka] eða Jungebluth [læknir sem kom að málinu hjá Karólínska], en hann er á Íslandi og það er bara sá sem fylgir honum eftir á Íslandi sem skrifar frásögn um hvernig sjúklingnum farnast. Það er sem sagt Tómas sem skrifar þetta. Virðist sem annar læknanna skrifi þetta, en hlutur Óskars er nú mjög lítill annað en það að lesa ekki textann,“ segir ónafngreindi læknirinn.

Frásagnir er tengjast ástand sjúklingsins þegar hann var til meðhöndlunar …
Frásagnir er tengjast ástand sjúklingsins þegar hann var til meðhöndlunar á Landspítala eru sagðar skáldaðar eða þeim hagrætt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í úrskurði rektors Karólínsku stofnunarinnar segir að lýsingar á ástandi sjúklingsins mánuðina eftir ígræðslu plastbarkans hafi með engu móti verið í samræmi við raunverulegt ástand hans. Sjúklingurinn var í mun verra ásigkomulagi en kemur fram í vísindagreininni og er Tómas, ásamt Óskari, sagður hafa haft mikla innsýn í raunverulegt ástand sjúklingsins þar sem hann var til meðhöndlunar hér á landi eftir aðgerðina.

 „Þegar þeir fá próförkina þá er barkinn að falla saman og það er verið að undirbúa það að senda sjúklinginn út til Karólínska til þess að setja stoðnet í berkina til þess að halda honum opnum. Hann [Tómas] sendir skeyti til Macchiarini um að þetta sé mjög gott sko. Hann segist sjálfur hafi verið að reyna að laga orðalagið svo það yrði eðlilegt, en þá átti hann ekkert að skrifa upp á þetta,“ segir læknirinn.

Samt höfundar að vísindagreininni

Læknirinn bætir einnig við að „þeir samt sem áður skrifa undir grein í Lancet sem segir að þarna sé nýr vefur og þetta sé allt í góðu lagi og maðurinn sé á batavegi. Ekki bara það, heldur þegar þeir fá próförkina í byrjun nóvember í Lancet, eftir að greininni var hafnað í New England Journal of Medicine, sem er í sjálfu sér óeðlilegt að grein sé hafnað og farið svo í annað tímarit.“

Þetta er í samræmi við úrskurð rektors Karólínsku stofnunarinnar þar sem segir að í umræddri vísindagrein sem birt var í Lancet sé lýsing á ástandi sjúklingsins fimm mánuði eftir aðgerð skálduð (sæ. fabricerad) og endurspeglaði frekar ástand hans fleiri mánuðum fyrr en gefið er upp í greininni.

Tómas hefur borið það fyrir sig að hann hafi reynt að koma á framfæri athugasemdum um lýsingar á ástandi sjúklingsins í umræddri vísindagrein. Í skýrslu nefndar sem skipuð var af Háskóla Íslands og Landspítala til þess að rannsaka plastbarkamálið sem var birt í nóvember 2017 er það talið Tómasi til málsbóta að hann hafi reynt að „tóna niður hástemmdar lýsingar á bata Andemariam [sjúklingsins]. Hann fagnaði þeim ábendingum sem ritrýnar komu með og lagði til að tekinn væri meiri tími til þess að vinna vísindagreinina.“

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. mbl.is/RAX

Prófessorinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir ekki óalgengt að vísindamenn geri athugasemdir við það sem fram kemur í handriti að vísindagrein sem er unnin í samstarfi við aðra. Hann segir að eðlilegur verkferill sé þá að segja sig strax frá verkinu, verði ekki komið til móts við þær athugasemdir.

Hann segir einnig að með því að samþykkja að vera höfundur að vísindagrein sé maður að samþykkja allt það sem kemur fram í henni og að það þurfi að veita samþykki fyrir öllum efnisatriðum.

Í þessu samhengi segir skýrsla nefndarinnar sem skipuð var af Landspítala og Háskóla Íslands að þeir  „Tómas og Óskar [hafi haft] aðeins einn boðlegan og réttan kost í stöðunni en það var að hafna þátttöku í frekari skrifum greinarinnar og draga nöfn sín út af lista meðhöfunda. Það gerðu þeir ekki og því verður að telja að vinnubrögð þeirra, sem meðhöfunda að framangreindri vísindagrein, uppfylli ekki þær gæðakröfur sem gera verður til starfa vísindamanna.“

Í yfirlýsingu rektors Háskóla Íslands frá 5. apríl segir að það komi Tómasi til málsbóta að hann hafi „óskað eftir því að fá nafn sitt dregið til baka af lista höfunda umræddrar vísindagreinar“.  Þetta gerðu bæði Tómas og Óskar 24. febrúar 2017, sem er fjórum mánuðum eftir að rannsókn málsins hófst hér á landi, um þremur árum eftir að sjúklingurinn lést og tæplega sex árum eftir að vísindagreinin var birt í Lancet.

Kynningarfundur í Háskóla Íslands þrátt fyrir alvarlega ágalla

Vilhjálmur Ari Arason læknir sagði við Morgunblaðið í gær að á málþingi um plastbarkaígræðsluna á ársafmæli aðgerðarinnar árið 2012 hafi aðgerðin verið lofsömuð þrátt fyrir vafa um ágæti hennar og segir Vilhjálmur að leiða megi að því líkur að niðurstöðurnar sem voru kynntar hafi skapað grundvöll fyrir fleiri sambærilegum aðgerðum.

Ónafngreindi læknirinn segir um málþingið að „þeir kynntu það með þeim hætti sem vakti athygli kollega minna um allan heim, sem hafa hneykslast á þessu, að halda því fram að þetta hafi í rauninni gengið vel. Á þeim tímapunkti hafði sjúklingnum verið flogið til Stokkhólms í nokkur skipti til þess að setja ný stoðnet, því þetta var allt að hrynja saman og með endalausar sýkingar.“ Þetta kemur einnig fram í skýrslu nefndar Háskóla Íslands og Landspítala.

Andemariam, sjúklingurinn, var fenginn til þátttöku á umræddu málþingi, en fram kemur í skýrslu nefndar Háskóla Íslands og Landspítala að „þótt Andemariam hefði skánað nokkuð þegar nær leið málþinginu hafði hann verið töluvert heilsuveill um nokkurt skeið þar á undan og því ástæða til að leggja það ekki á hann að taka þátt í því.“

Macchiarini með plastbarka.
Macchiarini með plastbarka.

„Menn hafa séð þetta allan tímann að þetta gat ekki staðist að setja plaströr í staðinn fyrir barkann á manni og halda að það myndu vaxa á því frumur og að það myndi myndast nýr vefur í kringum plastið. Enda var það komið í ljós sex vikum eftir aðgerð að það var ekki að gerast og það var gat sem sagt úr berkinni inn í miðmætu milli lungnanna. Þannig að það var alveg ljóst þegar Tómas og Óskar gerðu berkilspeglun um miðjan ágúst 2011 að þetta hafði ekki gengið upp,“ segir ónafngreindi læknirinn.

Samkvæmt yfirlýsingu Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, frá 5. apríl síðastliðnum er aðkoma Tómasar að málþinginu aðfinnsluverð, en upplýsingar um aðgerðina og ástand sjúklingsins komu frá honum. Þá hefur rektor, fyrir hönd Háskóla Íslands, í fyrrnefndri yfirlýsingu beðist afsökunar á ágöllum umrædds málþings.

Alvarlegt fyrir orðspor Háskóla Íslands

„Skýrslan frá Svíþjóð segir að þetta sé tilbúningur og þegar þetta er ekki tilbúningur þá sé sannleikanum hagrætt. Þeir segja fabricated and distorted. Það er alveg gríðarlega alvarlegt að gera svoleiðis í vísindariti, vegna þess að það leiðir til þess að það er hægt að réttlæta aðgerðir á fleiri sjúklingum sem Macchiarini síðan gerði. Allir sem undirgengust slíka aðgerð eru látnir nema einn þar sem hægt var að taka gervibarkann og tengja saman aftur,“ segir ónafngreindi læknirinn.

Vilhjálmur sagði við Morgunblaðið í gær að Háskóli Íslands verði að skera úr um hvort Tómasi sé stætt að hafa áframhaldandi aðild að vísindarannsóknum í ljósi þess að að hann hafi verið úrskurðaður ábyrgur fyrir vísindalegu misferli.

Ónafngreindi prófessorinn segir málið alvarlegt, ekki síst fyrir orðspor Háskóla Íslands, að vísindamaður sé starfandi sem hefur verið úrskurðaður sekur um vísindalegt misferli af einni af virtustu stofnunum læknisfræða, en Karólínska stofnunin veitir Nóbelsverðlaun í greininni.

„Frá sjónarhóli vísindasiðfræði þá finnst mér úrskurður rektors Karólínska sjúkrahússins mjög mikilvægur og jákvæður í þeirri merkingu að hann er til þess fallinn að auka traust á vísindarannsóknum,“ sagði Sólveig Anna Bóasdóttir, formaður vísindasiðanefndar Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu á miðvikudag. „Skólinn hlýtur að þurfa að hugleiða stöðuna með honum,“ sagði hún.

Fáir vilja tjá sig

Haft var samband við Maríu Sigurjónsdóttur sem starfaði í nefnd Háskóla Íslands og Landspítala við vinnslu fréttarinnar. Hún sagði nefndarmenn hafa komið sér saman um að ræða ekki innihald skýrslu sinnar eftir blaðamannafund sem haldinn var í nóvember, en vísaði þó á formann nefndarinnar, Pál Hreinsson. Hvorki hefur tekist að fá viðbrögð frá Páli Hreinssyni formanni né Georg Bjarnasyni sem einnig sat í nefndinni.

Leitað hefur verið viðbragða forstjóra Landspítala, Páls Matthíassonar, vegna málsins. Samkvæmt Stefáni Hrafni Hagalín, deildarstjóra samskiptadeildar, hyggst Landspítalinn ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Páll birti þó stuttan pistil á vef Landspítala í dag, þar sem kemur fram að hann hyggst skoða málið að nýju.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur ekki viljað tjá sig um málið og hefur vísað til yfirlýsingar sinnar frá 5. apríl. Þá segir hann í skriflegu svari til blaðamanns „Landspítali og Háskóli Íslands munu saman og í sitt hvoru lagi fara yfir þessa nýju skýrslu Karolinska Institutet eins og önnur gögn sem fram hafa komið í þessu erfiða og flókna máli.“

Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, fyrrverandi landlæknir og fyrrverandi forstjóri Karólínska sjúkrahússins, vildi ekki tjá sig um málið.

Blaðamaður hefur óskað eftir viðbrögðum landlæknis vegna tilvísunarinnar, en embættið hefur ekki svarað fyrirspurn blaðamanns.

Árangurslaust hefur verið reynt að ná sambandi við Tómas Guðbjartsson við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert