Verstu dæmin á Dómadalsleið og við Ljótapoll

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig ítrekað hefur verið ekið utan …
Á meðfylgjandi mynd sést hvernig ítrekað hefur verið ekið utan vega til að sneiða fram hjá snjóskafli á veginum. Um er að ræða skemmdir sem mun verða tímafrekt að lagfæra og taka langan tíma að gróa. Myndin er tekin við Löðmundarvatn á Dómadalsleið á Fjallabaki nyrðra Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Augljósustu dæmin um það þegar farið er út fyrir vegi á Fjallabaki til að sneiða fram hjá sköflum og pollum eru á Dómadalsleið og á leiðinni að Ljótapolli. Þá eru einnig slík dæmi af Sigölduleið. Þetta segir Hringur Hilmarsson, yfirlandvörður á Fjallabaki, í samtali við mbl.is, en í gær greindi Umhverfisstofnun frá því að talsvert væri um að fólk hefði ekki virt akstursbann sem þar hefði verið.

Taka skal fram að akstursbanni hefur verið aflétt á öllu Fjallabaki, nú síðast á leiðinni inn að Eldgjá. Þó eru allar leiðir á Syðra-Fjallabaki og leiðin inn að Langasjó merktar sem ófærar á vef Vegagerðarinnar. Það þýðir í raun að það er hægt að aka hana á eigin ábyrgð á breyttum vel útbúnum jeppum. Minni jeppar eiga þó ekkert erindi á slíka vegi.

Hringur segir að það sem af er þessu sumri hafi landverðir séð talsvert af dæmum um það þegar keyrt er aðeins út fyrir vega til að komast hjá ófærum eins og stórum pollum eða sköflum. Versta dæmið er á Dómadalsleið, rétt við Löðmundarvatn, en myndin sem fylgir fréttinni er þaðan. Þá segir Hringur að hann hafi í sumar nokkrum sinnum bæði komið að bílum sem hafi verið að keyra inn og út af svæðum þar sem akstursbann hafi verið í gildi.

Til viðbótar við þessi atvik segir Hringur að alltaf sé eitthvað um grófan utanvegaakstur. Það er að segja, þegar keyrt er utan vega og viðkvæmur gróður og jarðvegur spændur upp. Segir Hringur að í þeim tilfellum sem menn hafi verið staðnir að slíkum utanvegaakstri í ár og undanfarin ár sé oftast um að ræða fólk á litlum jeppum frá bílaleigum. Í hinum tilfellunum, t.d. þegar farið var á vegi þar sem akstursbann gilti eða þegar farið er rétt út fyrir merktan veg, þá sé skiptingin jafnari og einnig nokkuð um Íslendinga.

Sem dæmi um grófan utanvegaakstur nefnir Hringur að hann hafi nú fyrr í sumar komið að ökumanni sem hafi verið að keyra beint að Frostastaðavatni frá veginum inn í Landmannalaugar. Það mál hafi verið sent til lögreglu en ekki er komin niðurstaða hvort kært verði í því máli. Segir Hringur að í þessum tilfellum sé oftast um að ræða fólk sem telji í lagi að keyra á sandi og utan vega upp á hálendinu og segist ekki hafa vitað til þess að athæfið væri ólöglegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina