Kæra óleyfisbúsetu til lögreglu

Funahöfði 17A.
Funahöfði 17A. Morgunblaðið/RAX

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur kært tvo aðila til lögreglu vegna óleyfisbúsetu og þriðja kæran er í vinnslu, segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs hjá slökkviliðinu, í samtali við fréttastofu mbl.is. Háttsemin er talin varða við ákvæði almennra hegningarlaga og getur varðað allt að fjögurra ára fangelsi.

Um er að ræða nýjar áherslur hjá slökkviliðinu gagnvart þeim hættum sem geta skapast vegna óviðunandi brunavarna í atvinnuhúsnæði sem breytt hefur verið í íbúðarhúsnæði. Þremur slíkum stöðum hefur verið lokað á árinu.

„Ég bind vonir við að þetta hafi forvarnagildi. Að þeir sem eru að þessu reyni í það minnsta að að kunna fótum sínum forráð og hafa brunamálin í lagi,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Það er mat slökkviliðsins að í þeim tilvikum, þar sem atvinnuhúsnæði er í útleigu sem íbúðarhúsnæði án viðunandi brunavarna, sé verið að brjóta gegn lögum um brunavarnir og almennum hegningarlögum. Nánar til tekið 4. mgr. 220 gr. almennra hegningarlaga sem segir að sá sem stofnar lífi eða heilsu annarra í hættu í ábataskyni, af gáska eða á ófyrirleitinn hátt skuli sæta allt að fjögurra ára fangelsi.

„Ef útleiga á brunagildrum þar sem manneskjur eru hýstar án nokkurra varna ef eldur verður laus er ekki algjört brot á þessari grein þá veit ég ekki hvað. Það er alla vega okkar skoðun,“ segir Bjarni.

Bjarni bætir því við að óleyfisbúsetu í slíkum aðstæðum skjóti upp eins og gorkúlum. Slökkviliðið heldur skrá yfir eignirnar og skoðar hluta af þeim en hefur ekki bolmagn í að skoða þær allar.

„Við reynum að skoða þar sem við fáum skýrar ábendingar og þegar lögreglan hefur samband við okkur. Þetta er svona það sem við getum gert,“ segir Bjarni enn fremur og tekur fram að það ríki ákveðið úrræðaleysi gagnvart hættuástandi sem sé víða.

Hann tekur þó fram að tilvikin séu mismunandi, brotin misalvarleg og slökkviliðið grípi frekar til aðgerða eins og lokunar í alvarlegustu tilvikunum eða þar sem húsnæðiseigendur bregðast ekki við tilmælum innan viðunandi tíma.

„Það er afgerandi stjórnvaldsaðgerð að setja fólk á götuna þannig að við forðumst að beita þessu úrræði af fullri hörku nema í mjög alvarlegum tilvikum,“ segir Bjarni.

Sagt var frá því snemma í morgun að maður hefði verið fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar eftir að eldur kom upp í leiguhúsnæði að Funahöfða 17A. Fjöldi fólks býr í húsnæðinu og ítrekað hefur verið fjallað um aðstæður þar.

Bjarni segir þó að á Funahöfða séu brunavarnir með betra móti miðað við það sem gengur og gerist víða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert