Ákæra gegn Sindra gefin út

Sindri Þór flúði af Sogni og alla leið til Amsterdam.
Sindri Þór flúði af Sogni og alla leið til Amsterdam.

Ákæra gegn Sindra Þór Stefánssyni og samverkamönnum hans var afhent Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þetta staðfestir lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Ólafur Helgi Kjartansson, í samtali við mbl.is.

Ákært er fyrir stórfellt þjófnaðarbrot, auk þess sem sumir eru ákærðir fyrir að halda eftir upplýsingum. Ólafur Helgi gefur ekki upp hve margir samverkamenn Sindra voru ákærðir. Alls hafa 23 verið handteknir og yfirheyrðir vegna málsins og fimm hafa sætt gæsluvarðhaldi.

Málið er því formlega úr höndum lögreglu. Ólafur Helgi segir málið einstakt í sinni röð, en 600 tölvum að andvirði 200 milljóna íslenskra króna var stolið úr gagnaverum í desember og janúar.

Tölvubúnaðurinn er enn ófundinn og málið tók óvæntan snúning þegar Sindri Þór, sem sætti gæsluvarðhaldi, flúði af Sogni og alla leið til Amsterdam í Hollandi þar sem hann var handtekinn nokkrum dögum síðar. Hann hefur sætt farbanni síðan þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert