Kvíði er tilfinning ekki sjúkdómur

Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni, segir að ekki …
Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni, segir að ekki megi rugla saman kvíða annars vegar sem er tilfinning og hluti af lífinu og kvíðaröskun (klínískum kvíða) hins vegar sem þarf að fá meðferð við. mbl.is/Hari

„Kvíði er tilfinning – ekki sjúkdómur – ekkert frekar en reiði, depurð eða  ást,“ segir Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni (Litlu KMS). Eina úrræðið sem allir hafa aðgang að eru kvíðalyf og með því að setja alla á lyf getum við aukið enn frekar á vanda fólks, segir Steinunn.

Líkt og fram hefur komið sýna rannsóknir aukinn kvíða hjá ungu fólki, einkum ungum stúlkum. Á sama tíma hefur börnum sem fá lyf við kvíða fjölgað mikið.

Steinunn segir að ekkert bendi til þess að kvíðaraskanir eins og almenn kvíðaröskun, árátta-þráhyggja eða félagskvíði séu algengari í dag en áður. Slíkar raskanir hafi verið til allt frá tímum Forn-Grikkja líkt og bókmenntirnar sýna okkur. 

„Þrátt fyrir að rannsóknir sýni mælanlega aukningu á kvíða taka sálfræðingar það mátulega alvarlega þegar rannsóknarspurningin er opin. Til að mynda ef spurt er: Finnur þú fyrir kvíða? Það má velta því fyrir sér hvort það þýði að fleiri finni fyrir kvíða eða að fleiri séu meðvitaðir um kvíðaeinkenni án þess þó að vera með hamlandi kvíða eða kviðaröskun. Þó að kvíði og vandamál tengd kvíða séu hugsanlega að aukast í samfélaginu er ekki þar með sagt að fleiri þjáist af klínískum kvíðaröskunum en einna helst væri það þó félagskvíðaröskun (félagsfælni) en það er hræðslan við að verða sér til skammar, gera sig að fífli, vera útskúfaður eða verða fyrir athygli,“ segir Steinunn.

Hún hefur undanfarin ár nánast alfarið einbeitt sér að meðferðum fyrir börn og ungmenni með kvíðaraskanir og tengdan vanda en Litla KMS var stofnuð fyrir tveimur árum vegna mikillar spurnar eftir meðferðum fyrir börn og ungmenni á Kvíðameðferðarstöðinni (KMS).

Reynslan á að kenna okkur að kvíði er aðeins tímabundinn …
Reynslan á að kenna okkur að kvíði er aðeins tímabundinn og líður hjá ef við látum hann ekki stjórna viðbrögðum okkar. mbl.is/Hari

Breytt þjóðfélag og tökumst ekki á við það óvænta

Að sögn Steinunnar hefur þjóðfélagið breyst mjög mikið frá því sem áður var sem gæti að einhverju leyti skýrt aukningu í kvíðavandamálum hjá ungu fólki. „Til að mynda heyra heimsóknir til frændfólks nánast sögunni til og þegar þú ferð eitthvað með foreldrum þínum í frí eða heimsóknir þá leyfum við, sem foreldrar, börnunum að sitja inni í stofu eða herbergi með símann eða spjaldtölvuna svo þau séu til friðs og fullorðna fólkið fái að tala saman. Heimasíminn er deyjandi fyrirbæri og þeir sem eru með slíka síma eru með númerabirti. Það er aldrei neitt sem kemur þér á óvart. Þú þarft ekki að takast á við símhringingu frá einhverjum ókunnugum. Enda er það orðið mjög algengt að ungt fólk veigri sér við að hringja símtöl og þau svara sjaldan óþekktum númerum sem hringja í símana þeirra. 

Allir eru með innbyggt kvíðaviðbragð og hluti af því að verða fullorðinn er að læra að takast á við kvíða á þann hátt að hann stjórni okkur ekki. Þeir sem læra það á uppbyggilegan hátt; læra að takast á við fleiri og fleiri krefjandi aðstæður smátt og smátt, án þess að finna fyrir kvíða, og það er aðeins í nýjum og óvæntum aðstæðum sem kvíðinn kemur upp.

En reynslan á að kenna okkur að sá kvíði er aðeins tímabundinn og líður hjá ef við látum hann ekki stjórna viðbrögðum okkar og höldum ótrauð áfram. Þannig áttu að eiga auðveldara með að takast á við kvíða eftir því sem þú verður eldri og þroskaðri. Þú þekkir tilfinninguna og veist hvernig á að takast á við hana. Hér er ég að tala um venjulegan kvíða sem allir þekkja og flestir geta tekist á við án meðferðar. Kvíði sem uppeldi og lífsreynsla kenna okkur að takast á við.

Hins vegar erum við með klínískar raskanir, svo sem almenna kvíðaröskun, þráhyggjuáráttu, félagskvíða-, ofsakvíða- eða áfallastreituröskun o.fl., þar sem þarf aðstoð sérfræðings fyrir viðkomandi til að vinna á vandanum,“ segir Steinunn.

Meðferðin oft kostnaðarsöm og illa kynnt

Í dag eru meðferðarhorfur þessara skjólstæðinga mun betri en fyrir 20-30 árum, þegar skjólstæðingar með þráhyggjuáráttu til að mynda voru oftast nær settir á sterk geðrofslyf og litið á vanda þeirra sem nær ólæknanlegan. En vandamálið er hins vegar að meðferðin er bæði kostnaðarsöm og illa kynnt, segir Steinunn.

Hún segir að á sama tíma sé mikil vanþekking í gangi varðandi meðferðir við klínískum kvíða og meðferðirnar sem eru í boði gera ekki allar gagn og heldur ekki allir þeir sem bjóða upp á slíkar meðferðir.

Hver tími hjá sálfræðingi kostar frá 12 þúsund krónum upp …
Hver tími hjá sálfræðingi kostar frá 12 þúsund krónum upp í 18 þúsund krónur. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Við megum ekki rugla þessu tvennu saman: Kvíða annars vegar sem er tilfinning og hluti af lífinu og kvíðaröskun (klínískum kvíða) hins vegar sem þarf að fá meðferð við. Eins og ég sagði þá er ekkert sem bendir til þess að fleiri séu að greinast með klíniskan kvíða en áður á sama tíma og meðferðin er orðin miklu betri. Það er ef þú átt nægan pening og veist hvert þú átt að leita eftir hjálp. Hver tími hjá sálfræðingi kostar á bilinu 12.000- 18.000 krónur og ólíkt því sem er varðandi til dæmis sjúkraþjálfun þá sér ríkið ekki ástæðu til þess að koma til móts við þá sem þurfa á slíkri þjónustu að halda nema í einstaka tilvikum og með mjög þröngum skilyrðum.“

Sálfræðiþjónusta er einungis niðurgreidd af sjúkratryggingum fyrir börn yngri en 18 ára sem eru í meðferð hjá sálfræðingum sem eru aðilar að rammasamningi sálfræðinga og Sjúkratrygginga Íslands.

Að sögn Steinunnar er eitt af skilyrðum samningsins að aðeins þeir sálfræðingar sem hafa starfað hjá hinu opinbera í tvö og hálft ár geti óskað eftir að gera slíkan rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands.

Það er sett fram í samningnum til þess að tryggja að sálfræðingar hafi öðlast reynslu af meðferð barna og unglinga. En það þýðir að sálfræðingar, sem hafa tveggja og hálfs árs starfsreynslu á opinberum stofnunum sem sinna svo til engri meðferð fyrir börn og unglinga með klínískar kvíðaraskanir, s.s. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins eða skólaskrifstofur, geta sóst eftir að veita niðurgreidda meðferð fyrir börn og unglinga, segir Steinunn.

Sálfæðingar sem fengið hafa alla sína starfsreynslu og þjálfun á stofu eins og Litlu Kvíðameðferðarstöðinni munu ekki geta sóst eftir að komast á þennan rammasamning þrátt fyrir að starfa einvörðungu með börnum og ungmennum og njóta handleiðslu og teymisvinnu mjög reyndra sálfræðinga bæði hérlendis og erlendis, segir hún.

Peningum kastað á glæ og vandamálin áfram óleyst

„Með þessu er verið að kasta svo miklum peningum á glæ án þess að leysa úr vandamálum því geðheilbrigðisstarfsfólk fær ekki svigrún til þess að sérhæfa sig nema að svo takmörkuðu leyti. Að mínu mati væri tilvísunarkerfi líkt og notað er varðandi sjúkraþjálfun mun betri kostur en það kerfi sem nú er við lýði varðandi sálfræðiþjónustu. Ég þekki sjálf hversu mikilvægt það var fyrir mig að fá að leita að sjúkraþjálfara sem kynni að vinna með axlir þegar ég var hætt að sofa fyrir vekjum í öxl. Ég hefði ekki viljað fá aðgang að einum sjúkraþjálfara á minni heilsugæslu sem bæri ábyrgð á að sinna öllum aldri, kyni og tegundum vandamála. 

Ég tel að það hafi verið frábært skref og mjög mikilvægt sem stigið var við að ráða sálfræðinga inn á heilsugæsluna. En á sama tíma er fjarstæðukennt að halda því fram að fólk hafi aðgang að sérfræðingum líkt stundum er sagt,“ segir Steinunn.

Biðin eftir þjónustu er of löng

Hún segir að biðin sé of löng eftir þjónustu sérfræðinga og ákveðið viðhorf á Íslandi að allt heilbrigðisstarfsfólk viti jafnmikið um geðræn vandamál. Að hver sem er geti kallað sig meðferðaraðila og viti hvernig bregðast eigi við.

„Stundum gerist það að einhver með klínískan kvíða eða aðrar klínískar raskanir leitar til einstaklings sem kennir viðkomandi slökun, jóga, árvekni eða eitthvað annað. En því miður er í mörgum tilvikum verið að að láta viðkomandi taka kvíðann sinn enn alvarlegar en áður og gera viðkomandi enn hræddari við hann. Þetta gerir oft meira ógagn en gagn og viðheldur kvíðanum.

Hvernig væri að kenna börnunum að bjarga sér sjálf – …
Hvernig væri að kenna börnunum að bjarga sér sjálf – til að mynda að taka strætó í stað þess að pakka þeim sífellt inn í bómull! mbl.is/Eggert

Tökum sem dæmi barn sem kvíðir fyrir stærðfræðiprófi. Því finnst stærðfræði erfið og er stressað um að ganga ekki nógu vel. Barnið þarf að læra að kvíði sé eðlilegur hluti af því að undirbúa sig fyrir próf sem skiptir mann máli. Við viljum ekki taka eðlilegan kvíða of alvarlega. Þegar það er gert fer allt að snúast um að losa barnið við kvíðann í stað þess að kenna því að takast á við krefjandi aðstæður þrátt fyrir kvíða. Aðferðir sem slá á kvíða svo sem slökun eða djúpöndun geta hjálpað okkur að draga úr kvíða en mikilvægast er að næra ekki það viðhorf hjá börnum og foreldrum að allur kvíði sé stóralvarlegt mál og að þá sé hlutverk samfélagsins að fjarlægja allt sem vekur kvíða hjá ungu fólki eða að foreldrar eigi að hlífa börnum sínum við öllum kvíðavekjandi aðstæðum,“ segir hún.

Börnum pakkað inn í bómull

Steinunn tekur sem dæmi hvernig foreldrar eru farnir að pakka börnum sínum inn í bómull og vernda þau fyrir óvæntum aðstæðum. Auðvitað sé gott að vera meðvitaður um að forða barni frá því að lenda í hættu en það séu takmörk fyrir því hversu góð þessi sífellda vernd er.

„Til að mynda þekkist það varla að börn læri að taka ein strætó tíu ára gömul. Í mjög mörgum tilvikum eru það foreldrarnir sem útvega börnunum vinnu á sumrin, jafnvel þó svo þau séu komin yfir tvítugt. Þeir sjá um samskiptin við kennara, þjálfara eða yfirmenn. Á sama tíma eru foreldrarnir kannski búnir að ákveða að fara í þriggja vikna frí til útlanda um sumarið og ætlast til þess að ungmennið fái frí í vinnunni og komi með. Svo biðja foreldrarnir um frí fyrir hönd barnsins og vinnuveitendur hrista bara höfuðið.

Við erum að rækta ákveðið viðhorf hjá ungu fólki á Íslandi í dag. Bæði ungmennum sem og ungum foreldrum, það er að kvíði sé eitthvað sem alltaf eigi að bregðast við. Að það eigi að taka þessa tegund kvíða alvarlega og það verði að losa börn við kvíða svo þau geti tekist á við áskoranir í lífinu. Áskoranir eins og að mæta í próf, halda ræðu, taka strætó, sækja um vinnu eða biðja um frí og svo mætti lengi telja,“ segir Steinunn.

Framleiðum kvíða með viðbrögðum okkar

„Þegar foreldrar biðja um tilslakanir fyrir hönd barna sinna þegar kemur að nauðsynlegum og eðlilegum áskorunum sem allir þurfa að læra að takast á við þá geta þessi viðbrögð foreldra eða annarra aðila ekki bara viðhaldið vandanum heldur líka að framleitt meiri kvíða gagnvart athöfnum daglegs lífs og þannig verður til kynslóð af ungu fólki sem kvíðir margvíslegum athöfnum sem nauðsynlegar eru til þess að geta starfað og lifað í nútíma samfélagi,“ segir Steinunn.

Það eru mjög góðir sálfræðingar starfandi á heilsugæslustöðvum en við …
Það eru mjög góðir sálfræðingar starfandi á heilsugæslustöðvum en við erum að leggja allt of mikið á þá, segir Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hræðsla við hræðslu

Þegar viðhorf okkar er að við lítum á kvíða sem alvarlegt vandamál þá eru meiri líkur á að við þróum með okkur ofsakvíða, segir Steinunn. Slík köst eru í eðli sínu hræðsla við hræðslu.

„Við erum hrædd við viðbragðið sjálft og teljum líkamlegu einkennin vera alvarlegt vandamál, enda geta þau verið ótrúlega kröftug og óþægileg. Því miður er það þannig að ef þú bregst þannig við – að ofsakvíði sé alvarlegur – þá ertu að viðhalda honum og glímir áfram við kvíðann,“ segir Steinunn.

„Ofsakvíðaröskun er til að mynda einn auðveldasti kvíðavandi sem við fáum til meðhöndlunar en mjög oft kemur í ljós að skjólstæðingar hafa fengið ráð eða meðferð frá fagaðilum sem virðast ekki nógu vel að sér í meðhöndlun á ofsakvíða samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Yfirleitt þarf ekki nema 5-10 viðtöl til þess að uppræta ofsakvíðaröskun hjá fagaðilum sem kunna að meðhöndla hann,“ bætir hún við.

„Hér er ég að tala um meðferð hjá sérfræðingi sem hefur sérmenntað sig á þessu sviði og fylgir klíniskum leiðbeiningum landlæknis. Það er ekki nóg að vera með titilinn geðlæknir, sálfræðingur eða geðhjúkrunarfræðingur. En vegna smæðar landsins og fámennis er ætlast til þess að sérhæfing hvers fagmanns sé mjög breið.

Til að mynda á sálfræðingur á heilsugæslu að geta sinnt 12 ára barni sem er kvíðið, miðaldra konu sem glímir við áráttu- og þráhyggjuröskun (Obsessive Compulsive Disorder) og manni á fertugsaldri með alvarlegan félagskvíða. Hvernig á þessi sálfræðingur að geta sinnt þessu? Það eru mjög góðir sálfræðingar starfandi á heilsugæslustöðvum en við erum að leggja allt of mikið á þá og það þarf að vera svigrúm í kerfinu líkt og við sjáum hjá öðrum fagstéttum, svo sem sjúkraþjálfurum. Við verðum að geta valið okkur fagaðila sem henta skjólstæðingnum bæði þegar kemur að meðferðarsambandi, aldri, reynslu og sérfræðiþekkingu,“ segir Steinunn.

Getty images

Geðlyf oft það eina sem er í boði

Líkt og ítrekað hefur komið fram hefur notkun geðlyfja aukist mjög á Íslandi og ekki síst hjá börnum. Börn fá tilvísun á kvíðalyf hjá heimilislæknum og segir Steinunn að þetta sé oft það eina sem fólki býðst.

„Eina meðferðin sem þú hefur aðgang að og allir hafa aðgang að er að fara til heimilislæknis og óska eftir því við hann að fá kvíðalyf nema þú sért þeim mun ríkari. Með þessu er samfélagið að framleiða þetta viðhorf – að kvíði sé sjúkdómur sem þarf að meðhöndla með lyfjum,“ segir Steinunn.

Steinunn telur að með aukinni og betri fræðslu þar sem börnum er kennt að taka á mótlæti og taka afleiðingunum sé hægt að koma í veg fyrir sjúkdómsvæðingu kvíða með tilheyrandi lyfjaneyslu. Til að mynda ef barn kvíði fyrir prófi í fagi sem hefur verið lítið sinnt þá sé það mjög eðlilegt að barnið sé kvíðið yfir því að falla og að barnið verði einfaldlega að taka afleiðingunum og læra af þeim.

Megum alveg klappa börnum aðeins minna á bakið

Eins ef barn er kvíðið vegna áreitis frá samfélagsmiðlum þá þurfa foreldrar að grípa inn og kenna barninu að eðlilega sé það kvíðið því áreitið er of mikið og að vandinn sé ekki kvíðinn heldur tíminn og athyglin sem fer í samfélagsmiðlana.

„Við megum alveg klappa börnunum aðeins minna á bakið og gefa þeim aðeins meiri tíma. Að gera hlutina sjálf. Það getur þýtt 4-5 ferðir í strætó eða eitthvað annað þar sem barni er kennt að takast á við nýjar eða ófyrirséðar aðstæður því með því að vernda þau of mikið tökum við frá þeim þroska sem getur valdið kvíða seinna meir,“ segir hún.

Steinunn á sér þann draum að koma meira með þessa hugsun inn í grunnskólana frá fyrsta til tíunda bekkjar. Að byggja inn í skólakerfið geðheilbrigðisfræðslu með markvissum hætti með áherslu á heilbrigt viðhorf til tilfinninga og þjálfun í að þola að upplifa neikvæðar tilfinningar án þess að grípa til flótta eða sjálfsskaðandi hegðunar. Þess vegna verða sérfræðingar að koma að þessari uppbyggingu. Skólar þar sem símarnir eru teknir af börnum og hvorki sé í boði að vera í símum í frímínútum eða að taka spjaldtölvur heim. En að í staðin séu þau látin spjalla í frímínútum hvert við annað.

Að börn séu sett í óvissuþjálfun og þeim kennt að þau geti vel tekist á við nýjar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður. Það myndi ekki bara draga úr almennum kvíða heldur einnig byggja upp sjálfstraust. Börn í dag þurfa miklu meiri þjálfun í að tala fyrir framan bekkinn reglulega og að færa rök fyrir máli sínu bæði gagnvart jafnöldrum og kennurum. Í dag er þetta orðið hlutverk kennara í menntaskóla en þessari þjálfun á að vera lokið þegar þau koma í framhaldsskóla segir Steinunn.

AFP

Nánast óyfirstíganlegt að fara í Kringluna ein og án símans

„Á sama tíma veit ég að þetta er meira en að segja það því flestir foreldrar eru að vinna allt of mikið og hafa einfaldlega ekki tíma til þess að láta unglinga gera eitthvað án símans. Til að mynda er það orðið nánast óyfirstíganlegt fyrir sautján ára ungling að fara einn í Kringluna og það án síma.

Þau upplifa varnarleysi og óöryggi og þar eigum við foreldrar sök að máli því okkur líður betur ef við vitum um hvert skref sem börnin okkar stíga og viljum svo innilega að þau séu alltaf örugg. En þessi þörf okkar fyrir öryggi gerir það að verkum við að framleiðum kvíðasjúklinga. Við þurfum að takast á við okkar eigin kvíða til þess að börnin okkar geti tekist á við sína tilveru,“ segir Steinunn.

Vernd getur rænt barnið þroska

„Ef þú ætlar að vernda barnið þitt fyrir vanlíðan þá ertu að ræna það þroska. Þú tekur frá því að upplifa sigra og finna að það getur meira en það heldur. Að læra að kvíði er ekki hættulegur, að hann gengur yfir og að það getur gert hvað sem það vill þrátt fyrir kvíða,“ segir Steinunn.

Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni, segir að við …
Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni, segir að við foreldrar verðum að taka á okkur ábyrgðina ekki varpa henni á aðra. mbl.is/Hari

Hún segir að kvíðalyf eigi við í ákveðnum tilfellum en ekki alltaf og þau eigi alltaf að nota í hófi.

„Við erum að senda kolröng skilaboð með því að setja manneskju, sem er að glíma við lífið og kvíða sem því fylgir, á lyf. Það er búið að segja fólki að því eigi aldrei að líða illa sem er svo rangt því lyfin kenna því ekki að takast á við lífið og einu lyfin sem virkilega slá á kvíðaeinkennin eru ávanabindandi. Við þurfum að kenna ungu fólki að takast á við lífið. Kannski með aðstoð sérfræðings sem getur tekið skamman tíma en lengri í öðrum tilvikum. Við sem foreldrar verðum að taka á okkur ábyrgðina og ef við þurfum á aðstoð að halda þá þurfum við að hafa aðgang að faglegri aðstoð sem gerir gagn í stað þess að auka vandann,“ segir Steinunn Anna Sigurjónsdóttir, sálfræðingur hjá Litlu kvíðameðferðarstöðinni.

Greinarflokkur um málefni ungs fólks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert