Reiðhjólaþjófar handteknir

Tilkynnt var til lögreglunnar um innbrot í hjólageymslu hjá fyrirtæki við Sturlugötu á þriðja tímanum í nótt. Þrír menn sagðir á vettvangi. 

Tveir menn voru handteknir skömmu síðar grunaðir um innbrotið en  búið var að stela að minnsta kosti einu hjóli. Mennirnir voru hjólandi en er lögregla ætlaði að hafa af þeim afskipti þá hentu þeir hjólunum frá sér og reyndu að hlaupa burt.  Mennirnir eru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Skömmu fyrir fjögur í nótt var tilkynnt um mann vera að ráðast á konu við Konukot.  Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og er hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglumenn sem voru staddir í fjölbýlishúsi í Breiðholti síðdegis í gær höfðu afskipti af manni sem var að koma þar úr íbúð en sneri við er hann sá lögreglu. Maðurinn framvísaði ætluðum fíkniefnum er lögregla hafði af honum afskipti, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert