60 milljónir aukalega ekki á borðinu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég er tilbúin að koma að, eins og ég hef áður sagt, með þessar 60 milljónir sem gætu orðið til þess að liðka fyrir en aðra aðkomu hef ég ekki að samningagerð,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um þá kröfu samninganefndar ljósmæðra að aðrar 60 milljónir, 120 milljónir í heildina, verði settar inn í stofnanir til hliðar við miðlægan kjarasamning.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við mbl.is að ljósmæður hefðu óskað eftir því að að minnsta kosti 120 milljónir yrðu settar inn í stofnanir til þess að einhver leiðrétting væri föst á borði til viðbótar við þann samning sem felldur var í júní, og aðkomu gerðardóms að launasetningu.

„Ég hef sagt það bæði við ljósmæður og við ríkissáttasemjara að ég sé tilbúin þegar sér fyrir endann á samningnum, að þá geti ég komið að með þessa upphæð til þess að liðka fyrir á lokasprettinum. Ég kem ekki að þessu nema til þess að loka málinu,“ segir Svandís, og vísar til þeirra 60 milljóna sem í boði eru. Hún segir upphæðina ekki umsemjanlega, enda sé hún ekki hluti af samningnum heldur aukainnspýting frá velferðarráðuneytinu.

Góðar röksemdir fyrir launaleiðréttingu

Svandísi þykir undarlegt að ljósmæður vilji ekki aðkomu gerðardóms. „Þær eru með góðar röksemdir og gerðardómur er ætlaður til þess að taka röksemdir og byggja á þeim. Þetta er hlutlægur aðili sem fer yfir allar forsendur málsins í heild.“

Hvað ástandið á Landspítala varðar segir Svandís fyrirkomulagið ekki geta varað í lengri tíma. „Landspítalinn er bara að bregðast við því að mönnunin verður erfiðari með hverjum deginum sem líður, með það að leiðarljósi að tryggja viðkvæmustu þjónustuna eins og kostur er, sem eru fæðingarnar sjálfar. Það er það sem spítalinn getur gert og ég treysti spítalanum best til þess að finna út úr því hvernig best er að forgangsraða og endurskipuleggja sína starfsemi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert