Er vonsvikinn með vaxandi skattbyrði frá 2009

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Óli Björn Kárason

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, lýsir yfir vonbrigðum sínum með þróun skattbyrðar á tímabilinu 2009-2017, en svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Óla Björns um skatttekjur ríkissjóðs á árunum 2009-2017 birtist nýlega á vef Alþingis.

Gríðarlegar hækkanir

„Það er eftirtektarvert að skattbyrði á þennan mælikvarða, þ.e.a.s. skattbyrði sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þegar kemur að tekjuskatti einstaklinga, er að hækka verulega á þessu tímabili 2009-2017, um heilt prósentustig. Þetta er gríðarleg hækkun,“ segir Óli Björn í samtali við Morgunblaðið í dag. Heildarskatttekjur ríkissjóðs með tryggingagjaldi voru rúmir 383 milljarðar 2009 en 716 milljarðar árið 2017. Hann segir það athyglisvert að á tímabilinu sem um ræðir hafi milliþrep tekjuskatts verið fellt niður. „Það skiptir miklu máli. Hér væri skattbyrðin enn meiri ef milliþrepið hefði ekki verið fellt niður, sem skiptir venjulegt launafólk gríðarlega miklu,“ segir Óli Björn.

Ein ástæða fyrir hækkuninni er að tekjur einstaklinga hafa aukist á síðustu árum. Óli Björn segir að þó gefi augaleið að hér sé svigrúm til staðar til þess að lækka skatta meira en hefur náðst að gera hingað til.

„Ég lít á það sem eitt af verkefnum okkar að nýta svigrúm til að lækka skatta meira en hefur verið gert hingað til. Fyrirhugað er að lækka tryggingagjaldið enn frekar en orðið hefur og verið er að vinna að endurskoðun á tekjuskattskerfi einstaklinga,“ segir Óli Björn.

Á sama tíma, segir Óli Björn, er kallað eftir auknum útgjöldum. Segir hann að betra væri að mæla heilbrigðis- og menntakerfi landsins, stóru útgjaldaflokkana, eftir árangri frekar en út frá því hversu miklum peningum er varið til þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert