Blað brotið í íslenskri tónleikasögu

Guns N' Roses stíga á svið klukkan 20.
Guns N' Roses stíga á svið klukkan 20. mbl.is/Valli

„Það er gríðarlegur fjöldi kominn inn á svæðið nú þegar og enn fleiri streyma að,“ segir Orri Páll Ormarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, sem staddur er á Laugardalsvelli þar sem Guns N‘ Roses munu stíga á stokk innan stundar.

„Þetta lítur rosalega vel út. Það er augljóst að hér verður brotið blað í íslenskri tónleikasögu, alla vega hvað varðar umfang og stærð. Svo verðum við bara að láta reyna á gæðin þegar líður á kvöldið.“

Rosalegar raðir mynduðust í Laugardalnum, þær lengstu sem ljósmyndari mbl.is hafði augum litið, en áætlað er að stjörnurnar stígi á svið klukkan 20.

Samkvæmt Orra er veður fínt, þótt það sé ekki ólíklegt að eigi eftir að rigna svolítið.

Er fólk í stuði?

„Það sýnist mér. Sumir kannski komnir fram úr sér. En almennt sýnist mér liggja vel á fólki, og fólki á öllum aldri. Það er mjög áberandi að fólk er á öllum aldri, eins og kannski við er að búast. Hún hefur breiða tilhöfðun þessi hljómsveit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert