Ofn PCC í gjörgæslu út vikuna

Forstjóri PCC Bakka Silicon segir að ein vinaleg ábending hafi …
Forstjóri PCC Bakka Silicon segir að ein vinaleg ábending hafi borist um lyktarmengun frá því að starfsemin hófst. mbl.is/Hari

„Þetta var bara stutt viðgerð og hann er í gangi,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakka Silicon, um Birtu, ljósbogaofn kísilversins, sem slökkva þurfti á vegna vatnsleka úr vökvakerfi á þriðjudagskvöld. Eldur kom upp í ofninum 9. júlí og þurfti að kalla til slökkvilið. Afl var sett á hann að nýju nú á mánudag eða tveimur vikum eftir eldsvoðann og hafði hann því verið í gangi í um sólarhring er slökkva þurfti á honum aftur.

Hafsteinn segir að í þetta sinn hafi aðeins verið slökkt á ofninum í nokkra klukkutíma. „Þetta var í raun hluti af prufunum eftir eldsvoðann,“ segir Hafsteinn spurður hvort fyrirséð hafi verið að slökkva þyrfti á ofninum svo fljótt. „Við reiknuðum alveg með að eitthvað gæti komið upp, sem svo gerðist. Það má segja að hann sé í gjörgæslu út alla þessa viku, það gæti alveg eitthvað komið upp ennþá en það er ekkert sjáanlegt. Núna gengur hann fínt og allt í góðu.“

Hann segir enn eiga eftir að koma í ljós hvort einhverjar frekari skemmdir hafi orðið á Birtu sem gera þurfi við. 

Fréttin heldur áfram fyrir neðan færsluna.

Afl var fyrst sett á ljósbogaofninn hinn 30. apríl. Hafsteinn segist ekki muna nákvæmlega hversu oft hefur þurft að slökkva á honum síðan en að það sé „þó nokkru sinnum“. Hann segir að kerfi kísilversins séu stór og flókin og því þurfi að stöðva þau og fínstilla. „Við getum verið að tala um stopp í kannski korter,“ segir hann um flestar stöðvanirnar. „En við höfum kannski tvisvar til þrisvar lent í stoppi sem er talið í dögum.“

Ofn tvö í undirbúningi

Hann segir þetta fyrirséð. „Það má líka búast við því að þegar við setjum ofn númer tvö í gang að þá þurfi að stoppa hann nokkrum sinnum til að eiga eitthvað við hann, það er alveg pottþétt. En vonandi ekki svona löng stopp.“ Þegar er hafinn er undirbúningur að því að setja afl á þann ofn sem kallaður er Bogi.  

Hafsteinn segir að ekki eigi að þurfa að slökkva á ofnum sem þessum í lengri tíma nema eitthvað óvænt komi upp á. Hins vegar sé gert ráð fyrir stoppum reglulega í einhverja klukkutíma til að sinna viðhaldi. „Auðvitað er reynt að halda slíkum stoppum í lágmarki því ofninn framleiðir ekki neitt á meðan.“

Fyrsta framleiðslan til Grundartanga og Hollands

Framleiðslan er af þessum sökum aðeins á eftir áætlun að sögn Hafsteins. Hins vegar hafi kísilmálmur og kísilryk þegar verið framleitt og afhent kaupendum. Þannig hafi fyrsta sending kísilryks, sem er aukaafurð sem myndast við framleiðslu kísilmálms, farið til járnblendis Elkem á Grundartanga í byrjun mánaðar. Þá hefur kísilmálmur verið sendur til kaupanda í Hollandi.

Gæði kísilmálmsins hafa enn ekki verið í þeim gæðaflokki sem fastir viðskiptavinir PCC þurfa en Hafsteinn segir þó engan skort á kaupendum. „Það er mjög mikil eftirspurn eftir kísli og við getum selt allt. Það liggur við að það sé slegist um þennan málm sem við erum að framleiða núna og er ekki í hæsta gæðaflokki.“

Ein vinaleg ábending borist

Hann segir að í raun væri hægt að selja margfalt magn af málminum. „Það er af því að þið viljið ferðast svo mikið,“ segir hann í léttum tóni. „Allir vilja nýja farsíma, tölvur og fljúga út um allan heim. Þá þarf að framleiða kísil.“ Bendir hann í þessu sambandi sérstaklega á rafbíla og að kísill sé mikilvægt íblöndunarefni áls.

Hafsteinn segir að mengun frá kísilverinu hafi aldrei farið yfir viðmiðunarmörk frá upphafi rekstursins. Hann segir að aðeins ein ábending hafi borist um lyktarmengun frá starfseminni. „Það var vinaleg ábending,“ segir hann en hætta er á lyktarmengun ef ofninn er stöðvaður í lengri tíma og keyrður upp að nýju. „Þá getur komið lykt en hún er mjög lítil.“

Hann segir starfsmenn Umhverfisstofnunar nýverið hafa komið í heimsókn og hafi gert það reglulega frá upphafi starfseminnar. „Markmið okkar er að nágrannarnir verði ekki fyrir neinum óþægindum. En þetta er svipað og að búa í samneyti við aðra, nágranninn kveikir í kolagrillinu eða arninum hjá sér, þá finnur þú lykt. Þetta er mjög svipuð lykt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert