Ánægð með málalok hjá ljósmæðrum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ánægð með niðurstöðu ljósmæðra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er ánægð með niðurstöðu ljósmæðra. Kristinn Magnússon

„Ég er auðvitað mjög ánægð með að deilunni er lokið og að ljósmæður hafi samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um að  miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu ljósmæðra og íslenska ríkisins, hafi verið samþykkt á fundi ljósmæðra á miðvikudag.  

„Ég hafði lagt áherslu á að gengið yrði til atkvæða um þessa tillögu og það má segja að allir hafi lagst á eitt þegar Landspítalinn kom að málunum ásamt heilbrigðisráðherra og samninganefnd ríkisins undir lokin. Ég er ánægð að þessu ljúki með þetta góðri sátt, þetta var samþykkt með mjög afgerandi stuðningi,“ segir Katrín, en tillagan var samþykkt með 95,1% atkvæða á fundi ljósmæðra.

„Nú er það gerðardóms að taka afstöðu til þess sem hefur verið deiluefnið, hvort verið sé að taka tillit til menntunar ljósmæðra og álags í starfi og hvort því sé háttað með mismunandi hætti milli ólíkra stofnana. Þetta eru stóru málin sem hafa verið á borðinu og framlög Landspítalans og heilbrigðisráðherra munu nýtast til að jafna stöðuna milli ólíkra stofnana,“ segir hún.

Stórar áskoranir fram undan

Spurð um áhrif ljósmæðradeilunnar á kjaramálin almennt og þróun kjaramála fyrir haustið, segir Katrín að stór verkefni séu fram undan. Stjórnvöld séu samtalsfús og hafi þegar stigið mikilvæg skref hvað kjaramálin varði.

„Samningar á almenna markaðnum eru lausir um áramót. Við höfum hafið undirbúning að þeirri vinnu og ríkisstjórnin byrjaði strax á því að efna til reglubundins samráðs við alla aðila heildarsamtaka á vinnumarkaði. Ég tel að þau samtöl hafi þegar skilað árangri. Við höfum tekið ákvarðanir varðandi kjör æðstu embættismanna ríkisins með því að leggja niður kjararáð og í haust fáum við nýtt fyrirkomulag varðandi það,“ segir Katrín.

„Við höfum líka tekið ákvarðanir varðandi atvinnuleysisbætur og annað, eftir kröfum sem verkalýðshreyfingin hefur haft lengi. Ég held að þessi samskipti hafi strax skilað ákveðnum árangri fyrir verkalýðshreyfinguna,“ segir hún.

Samtal við verkalýðshreyfinguna aukist í haust

Katrín nefnir að stór heildarsamtök launafólks, ASÍ og BSRB, haldi bæði þing sín í haust og að í báðum tilvikum verði kosin ný forysta.

„Næsti fundur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er boðaður í ágúst og við verðum áfram með reglubundna fundi. Ég á von á því að meiri þungi færist í fundina að loknum þessum þingum í haust,“ segir Katrín.

„Ég átta mig á því að það eru miklar kröfur uppi, bæði gagnvart vinnuveitendum og ríkinu. Við vitum í sjálfu sér ekkert hvað kemur út úr þessu öllu saman. Við höfum aftur á móti þegar sýnt það í verki að við erum reiðubúin til samtals og viljum að það samtal verði að einhverju. Það var ákvörðun verkalýðshreyfingarinnar að segja ekki upp samningum í vor og láta þá gilda til áramóta. Ég fagnaði því mjög og vona að við getum áfram byggt á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður,“ segir hún.

Munu ákvarðanir kjararáðs ekki óhjákvæmilega hafa áhrif á samningsviðræðurnar?

„Það þarf að horfa til þess sem stjórnvöld hafa gert. Það var gerð skýrsla sem var sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Niðurstaðan þar var að leggja niður kjararáð og búa til nýtt fyrirkomulag sem kemst á í haust,“ svarar Katrín.

„Þar kemur líka fram að ef við tökum saman meðaltalsþróun launa þeirra sem heyra undir kjararáð og miðum við að engar frekari breytingar verði á henni út þetta ár, þá er sá hópur í takt við launaþróun á almennum markaði, þó að það sé dálítill munur á milli ólíkra hópa sem heyra undir kjararáð. Þessar tölur liggja allar fyrir og það eru ekki fyrirliggjandi breytingar á kjörum þeirra sem heyra undir kjararáð,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert