Lögreglan þurfi að huga að eigin öryggi

Aðalsteinn segir að lögregla þurfi að huga að eigin öryggi …
Aðalsteinn segir að lögregla þurfi að huga að eigin öryggi hvað varðar aukinn vopnaburð almennings. Hér sjást vopnaðir laganna verðir á Laugardalsvelli. mbl.is/Hanna

„Maður er að verða meira og meira var við þetta,“ segir Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri lögreglunnar á Akureyri, spurður um aukinn vopnaburð fólks og æ fleiri tilvik þess að fólk beri á sér eggvopn og barefli þegar lögregla hefur afskipti af því. Fjórir voru kærðir fyrir brot á vopnalögum á Norðurlandi eystra um helgina eins og RÚV greindi frá. Hann segir að þörf sé á aukinni umræðu um málið svo stemma megi stigu við þeim vanda sem blasi við. Eins þurfi lögregla að huga að eigin öryggi í málum sem þessum.  

Aðalsteinn segir þróunina benda til þess að fíkniefna- og glæpaheimurinn á Íslandi hafi harðnað. „Þessi viðskipti fara fram neðanjarðar eins og það er kallað og menn eiga það til að skulda sín viðskipti. Þá þarf einhvern veginn að standa skil á þeim skuldum og stundum er það bara hreinlega ekki hægt. Þar af leiðandi eru menn sjálfsagt farnir að finna sig knúna til þess að verja sig á einhvern hátt ef á þá er ráðist, ef þeir eru handrukkaðir eins og það er kallað. Og því eru menn farnir að ganga vopnaðir. Þetta er harðnandi heimur og við verðum vör við þetta reglulega.“ 

Fíkniefnaakstur færst í aukana

Þá segist Aðalsteinn finna fyrir stóraukinni fíkniefnanotkun og sömuleiðis fíkniefnaakstri. „Það er mikið af efnum í umferð, það er orðið auðvelt aðgengi að þessu. Það sem af er þessu ári erum við búnir að taka fleiri [fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna] en í fyrra og við erum að verða búnir að jafna árið þar áður hvað varðar tilvik fíkniefnaaksturs, og það er bara júlí,“ segir Aðalsteinn

Aðspurður segist hann telja að umræðu vanti um þessi málefni til þess að stemma stigu við þróun mála. „Þetta á ekki að vera neitt leyndarmál. Það er í umræðunni að lögreglan vopnist á einhvern hátt og við höfum náttúrulega aðgang að vopnum. Aðallega vantar að fólk sé meðvitað um þetta, að þetta sé bara raunveruleikinn í dag. Eðlilega erum við að hugsa um okkar eigið öryggi líka. Við erum með ágætisöryggisbúnað en við þurfum alltaf að vera á tánum gagnvart þeim aðilum sem við erum að fást við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert