Heimsleikarnir að hefjast

Leikarnir fara fram í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum.
Leikarnir fara fram í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Crossfit Games

Fimm Íslendingar eru skráðir til leiks á heimsleikunum í atvinnumannaflokki karla og kvenna en leikarnir hefjast á morgun, miðvikudag, í borginni Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum. Í kvennaflokki eru það Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir og Eik Gylfadóttir og í karlaflokki Björgvin Karl Guðmundsson. Þar að auki er Brynjar Orri Magnússon skráður til leiks í flokki 14-15 ára drengja, Birta Líf Þórarinsdóttir í flokki stelpna 14 til 15 ára og Katla Björk Ketilsdóttir í flokki 16 til 17 ára stelpna. 

Annie Mist og Katrín Tanja í keppninni í fyrra. Þær …
Annie Mist og Katrín Tanja í keppninni í fyrra. Þær eru báðar með í ár.

Snorri Barón Jónsson er staddur í Madison til að fylgjast með leikunum en hann hefur unnið mikið með þeim Söru og Björgvini. „Þau hafa verið í tímatökum og að prófa hjólin og svona í dag,“ segir Snorri í samtali við mbl.is en keppendurnir voru að prófa eitthvað í tengslum við sundþraut á meðan hann ræddi við mbl.is og átti hann eftir að fá betri upplýsingar um hvers eðlis það var.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir á leikunum í fyrra.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir á leikunum í fyrra. Ljósmynd/Crossfit Games

Hluti af heimsleikunum er mikil óvissa um hvaða þrautir keppendurnir þurfa að klára, en fyrsti dagurinn er á morgun þar sem keppendurnir klára fjórar þrautir, á fimmtudaginn er hvíldardagur og svo keppa þeir aftur á föstudag, laugardag og sunnudag.

Björgvin Karl Guðmundsson.
Björgvin Karl Guðmundsson. Ljósmynd/Snorri Björns

Madison er að sögn Snorra fallegur háskólabær í miðju Wisconsin á milli tveggja vatna. „Það fer ekki á milli mála að heimsleikarnir séu að fara hérna fram. Crossfit-leikarnir eru fyrir Madison það sem þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er fyrir Vestmannaeyjar. Eini maðurinn sem er ekki í formi hérna er ég,“ segir Snorri léttur í bragði.

„Þetta byrjar í fyrramálið og þá eru fjórir „eventar“,“ segir Snorri. „Allir keppendur mæta fjórum sinnum á morgun og murka sig. Það var verið að tilkynna í gærkvöldi síðasta „event“ morgundagsins, maraþon á róðravél. Þau eiga að fara 42 kílómetra á róðrarvél sem hefur ekki verið gert áður á leikunum eftir að þau hafa lokið við þrjá „eventa“; hjóla, þungar lyftingar og fimleikaæfingar í hringjum.“

Eik Gylfadóttir er ein fjögurra íslenskra keppenda í kvennaflokki.
Eik Gylfadóttir er ein fjögurra íslenskra keppenda í kvennaflokki. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir mikla spennu vera meðal keppenda og þjálfara þar sem enginn viti hvað bíði þeirra nema auðvitað mikil áreynsla. „Það er verið að „droppa hintum“ hér og þar en þeir lauma þessu svo bara inn. Allir sem eru hérna að æfa og þjálfararnir þeirra eru að leita vísbendinga og reyna að lesa í hvaða „eventar“ þetta gætu verið og þetta er talsvert stress. Það þurfa allir að vera í toppstandi og vera búnir að æfa allan andskotann, sund, klettaklifur og allt þar á milli. Það gæti komið fótboltaæfing þess vegna,“ segir Snorri.

Snorri segir Íslendingana líta vel út. „Björgvin og Sara eru í frábæru formi. Þau eru búin að vera að ströggla við meiðsli, Sara slasaðist illa í byrjun árs og Björgvin var meiddur á „regionals“ í maí. Þau eru búin að jafna sig að fullu og líta mjög vel út. Slæmu fréttirnar eru að allir hinir líta vel út líka,“ segir Snorri. „Þetta er allt magnað íþróttafólk og þetta snýst ekki um skrokkinn heldur um hausinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert