Stærsta áskorunin að flytja norður

Ásthildur tekur við bæjarstjórastöðunni í september.
Ásthildur tekur við bæjarstjórastöðunni í september. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ásthildur Sturludóttir, nýráðinn bæjarstjóri á Akureyri, segir stærsta verkefnið fram undan að flytja í nýjan bæ með fjölskylduna. Ásthildur hefur síðustu átta ár gegnt embætti bæjarstjóra í Vesturbyggð og búið á Patreksfirði, sem tilheyrir sveitarfélaginu. „Ég hef aldrei búið svona austarlega í heiminum,“ segir Ásthildur en hún er uppalin í Stykkishólmi og bjó um tíma í New York þar sem hún nam opinbera stjórnsýslu.

Ásthildur segist aðspurð ekki eiga von á að stefnubreyting fylgi nýjum bæjarstjóra enda sé það í höndum pólitískra fulltrúa. „Mitt verk er að framkvæma vilja meirihlutans,“ segir hún en bætir þó við að nýir stjórnarhættir fylgi nýju fólki.

Í grundvallaratriðum er lítill munur á bæjarstjórastarfinu í Vesturbyggð og á Akureyri, segir Ásthildur. Verkefnin séu þau sömu þótt allt sé stærra í sniðum á Akureyri, þar sem 18.000 manns búa samanborið við rúmlega þúsund manns í Vesturbyggð. 

Ásthildur tekur að öllum líkindum við starfi í september. Hún var valin úr hópi 18 umsækjenda um starfið en hún tekur við af Eiríki Birni Björgvinssyni sem hefur verið bæjarstjóri frá árinu 2010. Samfylkingin, Framsóknarflokkur og L-listi skipa meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar og hafa gert frá árinu 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert