Sögulegt sjúkraflug Gæslunnar

Þetta var í fyrsta sinn sem fyllt var á eldsneytistank …
Þetta var í fyrsta sinn sem fyllt var á eldsneytistank þyrlunnar á ferð. Ljósmynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti á tíunda tímanum mann af skemmtiferðaskipi um 250 kílómetra norðnorðaustur af Melrakkasléttu, vegna bráðra veikinda. Maðurinn verður fluttur á Landspítalann.

Í samtali við mbl.is segir Guðmundur Rúnar Jónsson hjá Landhelgisgæslunni að um sögulegt flug sé að ræða því þetta sé í fyrsta sinn sem þyrla Gæslunnar notast við sérstakan búnað (HIFR) sem gerir henni kleift að taka eldsneyti á ferð.

Koma að Landspítala eftir miðnætti

Sjaldgæft er að þyrlan sé kölluð út í verkefni svo langt frá landi og neyddist hún til að taka eldsneyti á leið sinni frá Reykjavík að skipinu. Varðskip Gæslunnar, Týr, er á siglingu um 80 kílómetra norðaustur af Melrakkasléttu með eldsneytistank og segir Guðmundur að þyrlan hafi híft upp eldsneytisslöngu af skipinu og fyllt á tankinn áður en haldið var að skemmtiferðaskipinu að sækja þann sjúka.

Þegar mbl.is náði tali af Guðmundi rétt rúmlega tíu var búið að sækja sjúklinginn og þyrlan komin aftur að Tý þar sem fyrirhugað var að fylla á tankinn að nýju áður en haldið er til Reykjavíkur. Guðmundur á von á að sjúklingurinn komist á Landspítala skömmu eftir miðnætti.

Skemmtiferðaskipið sem um ræðir er franskt og var á leiðinni frá Svalbarða til Reykjavíkur þegar einn farþeginn veiktist skyndilega. Meira liggur ekki fyrir um veikindi hans.

Uppfært klukkan 23:50

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er búist við að þyrlan, TF-LÍF, lendi í Reykjavík um korter í eitt í nótt.

Frá æfingu hjá Landhelgisgæslunni.
Frá æfingu hjá Landhelgisgæslunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert