Þurfa að vita hvar fólk er niðurkomið

Frá Skaftárhlaupi árið 2015.
Frá Skaftárhlaupi árið 2015. mbl.is/RAX

„Við höfum verið að setja okkur í samband við þessa aðila sem eru á svæðinu, bæði í Vatnajökulsþjóðgarði og Skaftafelli og fólkið sem er þarna á svæðinu,“ segir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, spurður út í verkefni lögreglunnar það sem af er degi vegna Skaftárhlaups.

Sveinn er á leiðinni á fund með Veðurstofunni og almannavörnum, sem hefst klukkan tvö, þar sem staðan verður metin.

Hann segir lögregluna hafa í morgun rætt við aðila á svæðinu um þær mögulegu lokanir sem grípa þarf til og um að þeir átti sig á umferðinni um svæðið og hvar fólk sé niðurkomið.

Hann segir lögregluna vera að horfa á lokanir í kringum Hólaskjól á nyrðri Fjallabaksleið.

mbl.is/​Hari

Veðurstofan hefur hvatt ferðamenn til að halda sig frá þessum slóðum. Sveinn segir að eftir eigi að ákveða næstu skref varðandi ferðamennina. Hann veit ekki hversu margir þeir eru á ferðinni en nefnir að töluvert sé af göngufólki.

Sveinn tekur fram að engir bæir séu í hættu sem búið er á. Helst þurfi að fylgjast með veginum upp í Skaftárdal þar sem einhver sumarhús séu.

Spurður hvort aukamannskapur hafi verið kallaður út segir hann lögregluna með allan tiltækan mannskap að störfum, enda verslunarmannahelgin að hefjast og nóg að gera á þeim vígstöðvum líka.

„Það er enginn dauðaasi á okkur af því að það er ekkert enn komið undan jökli. Við höfum ágætistíma til að undirbúa okkur,“ segir hann.

Frá Skaftárhlaupi 2015.
Frá Skaftárhlaupi 2015. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert