Dregur úr rennsli Skaftár

Skaftárhlaup náði hámarki rétt eftir miðnætti og frá klukkan 1 …
Skaftárhlaup náði hámarki rétt eftir miðnætti og frá klukkan 1 í nótt hefur dregið hægt úr hlaupinu. mbl.is/RAX

Rennsli Skaftár við Sveinstind virðist hafa náð hámarki rétt eftir miðnætti og klukkan eitt í nótt stóð rennslið í rétt tæpum 1.600 rúmmetrum á sekúndu. Síðan þá hefur dregið úr rennslinu og mældist það 1.517 rúmmetrar á sekúndu klukkan þrjú og 1.471 rúmmetri á sekúndu klukkan fimm.

Þrír vísindamenn frá Veðurstofu Íslands flugu yfir Skaftárkatla í Vatnajökli með þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, síðdegis í gær og með eftirlitsfluginu fékkst staðfest að bæði Eystri- og Vestari-Skaftárketill hafa hlaupið, en mun minna vatn hafði safnast fyrir í V-Skaftárkatli en í hinum eystri. Ljóst er að hlaupið er með stærri hlaupum sem mælst hafa.

Vísindamenn könnuðu aðstæður við báða katlana og í ljós kom að sprungur liggja um allan Eystri-Skaftárketil og hefur miðja hans sigið meira en 70 metra. Mælistöðin, sem sent hefur GPS-gögn um lækkunina stendur enn, en ekki reyndist unnt að síga niður að stöðinni til að ná GPS-tækinu og þar með gögnum, sem safnast hafa síðan samband við stöðina rofnaði á laugardagsmorgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofunnar.

Sprungur liggja um allan Eystri-Skaftárketil og hefur miðja hans sigið …
Sprungur liggja um allan Eystri-Skaftárketil og hefur miðja hans sigið meira en 70 metra. Ljósmynd/Þorsteinn Þorsteinsson

Vestari-Skaftárketill ber greinileg merki nýlegs sigs. Hlaup úr honum hefur því hafist í kjölfar hlaupsins úr eystri katlinum og er þessi viðbót skýringin á því að vatnshæð við Sveinstind jókst á miðnætti aðfaranótt sunnudags.

Brýrnar við bæinn Skaftárdal eru umflotnar hlaupvatni en standa enn. Lög­reglu­menn brugðu á það ráð að saga vegrið af brúnni við Eld­vatn í gærkvöldi til að minnka hætt­una á því að áin hrífi brúna með sér.

Nú dregur hægt úr hlaupinu en ekki er vitað með vissu hve lengi hlaupið mun standa, líklegt er að því verði að mestu lokið innan einnar viku. Veðurstofan og lögreglan vekja athygli á því að eindregið er varað við því að vera á ferð á þessum slóðum vegna losunar eitraðra gastegunda úr hlaupvatninu, auk þess sem stór ísflikki geta brotnað úr jökulsporðinum og ofan hans. Fregnir hafa borist um sterka brennisteinslykt vestan Skaftár og allt vestur fyrir jökul.

Rennsli Skaftár fór hæst í 1.600 rúmmetra rétt eftir miðnætti.
Rennsli Skaftár fór hæst í 1.600 rúmmetra rétt eftir miðnætti. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert