Fyrsta keppni sinnar tegundar á Íslandi

Ljósmyndari/Erlendur Þór Magnússon

WOW Glacier 360 er þriggja daga maraþonkeppni á fjallareiðhjólum sem er haldin í þriðja skiptið í röð núna um helgina. Keppnin hófst í gær við Geysi og lýkur á morgun við Gullfoss. Þátttakendur keppa í tveggja manna liðum og hjóla þeir samtals 290 km leið í kring um Langjökul. Eins og stendur eru það íslensk lið sem leiða keppnina og er það í fyrsta sinn sem það gerist.

„Keppnin er haldin árlega og er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi,“ segir Björk Kristjánsdóttir, keppnisstjóri í samtali við mbl.is. „Þetta er rosalega vinsælt keppnisfyrirkomulag erlendis. Það er keppt í tveggja manna liðum, tveir og tveir saman að hjóla. Allir keppendur hjóla alla leiðina,“ bætir hún við.

Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon

Algjört ævintýri

Tæplega tveir þriðju hluti keppenda kemur erlendis frá og eru þeir meðal annars frá Ástralíu, Filippseyjum, Bandaríkjunum og ýmsum Evrópulöndum. Samtals eru keppendur 52 talsins í 26 liðum. Keppt er í karla- og kvennaflokki og blönduðum flokki. Þá er keppt í master flokki fyrir keppendur sem eru 40 ára og eldri og grand master flokki fyrir keppendur 50 ára og eldri.  

„Þetta er algjört ævintýri,“ segir Björk og telur keppnina og keppnisfyrirkomulagið henta fullkomlega fyrir aðstæður og aðbúnað á svæðinu í kring um Langjökul. Leiðirnar eru misjafnar þar sem er hjólað yfir malarvegi meðfram hrauni upp Haukadal, yfir grýtta slóða og gegnum grösugan dali.

Ljósmyndari/Vala Dís Halldórsdóttir

„Þetta hentar frábærlega í maraþonkeppni þar sem það verður að hjóla meira en 60 km á dag. Það verða að vera staðir sem bjóða upp á þjónustu. Í Húsafelli gistir fólk ýmist í tjöldum eða á hóteli og þar er hægt að kaupa mat og fara í sund. Á Hveravöllum er hægt að fara í skálann og þetta er einhvern veginn fullkomin leið fyrir þessa keppni,“ útskýrir Björk.

Ferðaþjónustufyrirtækið Made in Mountains heldur utan um keppnina og sér um að keppendum líði vel yfir helgina. Fyrirtækið sér um að koma liðunum á áfangastað, sér um mat, þrífur hjól og setur upp tjaldbúðir fyrir keppendur auk þess að sinna gæslu á meðan keppninni stendur.

Hægt er að fylgjast með keppninni sjálfri á heimasíðu hennar og facebook -síðu. Einnig er hægt að fylgjast með tímatökunni sem uppfærist eftir því sem liðin koma í mark. Sem stendur leiðir liðið Airport direct keppnina en það samanstendur af þeim Birki Snæ Ingvasyni og Eyjólfi Guðgeirssyni.

Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon
Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon
Ljósmynd/Erlendur Þór Magnússon
Ljósmynd/Juliette Rowland
Ljósmynd/Juliette Rowland
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert