Kæra ákvörðun meirihlutans um Kaplakrika

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Minnihluti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hyggst kæra samþykkt meirihluta bæjarstjórnar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en umrædd samþykkt lýtur að þeirri ákvörðun meirihlutans að falla frá áætlunum um byggingu knatthúss í Kaplakrika og kaupa þess í stað aðrar eignir FH á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu minnihlutans. 

Hafn­ar­fjarðarbær og Fim­leika­fé­lag Hafn­ar­fjarðar gerðu með sér rammasamkomulag um að knatt­hús FH rísi í Kaplakrika á fyrri hluta næsta árs. Fram­kvæmd­ir eiga að hefjast á næstu vik­um. FH mun hins vegar sjá um að byggja, eiga og reka knatthúsið. 

Fulltrúar minnihlutans draga í efa að ákvörðunin standist sveitarstjórnarlög, sérstaklega hvað varðar ábyrga meðferð fjármuna af hálfu kjörinna fulltrúa, að því er segir í tilkynningunni.

„Á aukafundi sem haldinn var að kröfu minnihlutans fyrr í dag lagði minnihlutinn fram fjölda spurninga sem varða meðal annars meint ólögmæti ákvörðunarinnar og ekki hafa fengist svör við,“ segir í tilkynningunni.

Þá telur minnihlutinn skorta á upplýsingar um verðmat fasteignanna, ástand húsanna og áhrif kaupanna á rekstur og fjárhag bæjarins. Sýnt hafi verið fram á umfangsmikla formgalla á málatilbúnaði af hálfu meirihluta bæjarstjórnar sem minnihlutinn telur brjóta í bága við 62. og 63. gr. sveitarstjórnarlaga um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is