„Auðvitað er best að sleppa þessu“

Jóhanna telur að fyrirkomulagið hér á landi virki vel.
Jóhanna telur að fyrirkomulagið hér á landi virki vel. mbl.is/Júlíus

„Það er svolítið nýtt að slegið sé á allan vafa með það að þú átt ekki að drekka áfengi til að bæta heilsuna,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, lýðheilsufræðingur og fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Greint var frá niðurstöðum rannsóknar á skaðsemi áfengis í morgun en þar kom meðal annars fram að hver einasti sopi er skaðlegur.

Jóhanna segir að rannsóknin virki sannfærandi en samkvæmt henni eru dauðsföll 2,8 millj­óna árið 2016 rak­in til áfeng­isneyslu. Það ár var áfeng­isneysla ein helsta dánar­or­sök ein­stak­linga á aldr­in­um 15 til 49 ára, eða um 20% allra dauðsfalla.

„Það að fólk drekki eitt rauðvínsglas á dag fyrir hjartað er í raun og veru mýta. Auðvitað er eitt glas í lagi af og til ef fólk er heilsuhraust og stundar heilbrigt líferni. Það á ekki að drekka með þeim formerkjum að það sé að bæta heilsuna,“ segir Jóhanna og bætir við að það sama gildi um margt annað. Til að mynda er ekki gott fyrir heilsuna að borða nammi eða drekka gos:

„Fólk gerir stundum eitthvað til að líða aðeins betur en gerir það ekki með þeim formerkjum að það sé að bæta heilsuna.

Aðalhöfundur rannsóknarinnar, doktor Emm­anu­ela Gakidou, seg­ir að herða eigi regl­ur um sölu áfeng­is og að skatt­ar á því eigi að vera háir. Jóhanna segir að lýðheilsufræðingar hafi ávallt stutt að áfengi sé ekki selt í matvörubúðum og að aðgengið sé takmarkað.

Jóhanna Eyrún Torfadóttir, lýðheilsufræðingur og fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands.
Jóhanna Eyrún Torfadóttir, lýðheilsufræðingur og fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst fyrirkomulagið hér virka vel; það er opið í ákveðinn tíma, það er ekki opið alla daga vikunnar og fólk þarf að fara í sérstaka búð. Ég held að það sé jákvætt að við umgöngumst áfengi þannig að það sé eitthvað sem maður ætlar að neyta í hófi, ef maður á annað borð gerir það. Auðvitað er best að sleppa þessu en ef fólk drekkur áfengi þá veit það að það á að fara varlega með þetta.

Grein­end­ur í Washingt­on-há­skóla rann­sökuðu áfeng­isneyslu og heilsu­far­leg vanda­mál tengd henni í 195 lönd­um frá 1990 til 2016. Notuð voru gögn úr 694 rann­sókn­um til að áætla hversu al­menn áfeng­isneysla var auk gagna úr öðrum 592 rann­sókn­um til að meta heil­brigðisáhætt­una tengda áfeng­isneyslu. Rann­sókn­irn­ar náðu til 28 millj­óna þátttakenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert