Fara í hópum til tannlækna í útlöndum

Verulegur munur er á tannlæknakostnaði á Íslandi og Póllandi.
Verulegur munur er á tannlæknakostnaði á Íslandi og Póllandi. Ljósmynd/ThinkstockPhotos

Fjöldi Íslendinga fer til útlanda, einkum til landa í Austur-Evrópu, gagngert til að fara til tannlækna og getur munurinn á kostnaði við tannlæknaþjónustu þar og hér verið allverulegur.

Dæmi eru um að þjónustan kosti þar um 20% af því sem hún kostar hér á landi. Stofurnar auglýsa starfsemi sína á íslensku á netinu og á samfélagsmiðlum, og nú er farið að bjóða upp á hópferðir á þessar stofur, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Ingvar Jónsson ráðgjafi og framkvæmdastjóri fór í síðustu viku til tannlæknis í borginni Gdansk í Póllandi. Tannlæknir hans hér á landi hafði áætlað að viðgerðir á tönnum hans myndu kosta um 800.000 krónur. Ingvar ákvað að kanna fleiri möguleika og fékk verðmat hjá tannlæknastofu í borginni Gdansk í Póllandi eftir að hafa kynnt sér starfsemi stofunnar. Hann flaug síðan utan í síðustu viku og fékk viðgerðir á tönnum sínum. Fyrir það greiddi hann 160.000 krónur, eða um 20% af verðinu sem honum hafði verið gefið upp hér á landi. Að auki greiddi Ingvar fyrir flugferðir og gistingu í Gdansk.

Spurð hvers vegna svona mikill verðmunur sé á tannlæknaþjónustu hér á landi og t.d. í löndum Austur-Evrópu, segir Elín Sigurgeirsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, að á því gætu verið nokkrar skýringar. Hugsanlega sé verið að nota ódýrari hráefni þar en hér og þá sé vinnuafl almennt ódýrara í löndum Austur-Evrópu en hér á landi. Hún segir að félaginu hafi verið tilkynnt um nokkur tilvik þar sem vinnu erlendra tannlækna hafi verið ábótavant.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert