Óttast að dyravörður sé mænuskaddaður

Lögreglan rannsakar hvort árásin náðist á öryggismyndavélar.
Lögreglan rannsakar hvort árásin náðist á öryggismyndavélar. mbl.is/Arnþór

Óttast er að dyravörðurinn sem varð fyrir grófri líkamsárás fjögurra manna fyrir utan skemmtistaðinn Shooters um helgina hafi orðið fyrir mænuskaða.

Þetta hefur RÚV eftir heimildum.

Verið er að skoða hvort árásin náðist á öryggismyndavélar.

Árásin var framin skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags.

Tveimur árásarmannanna hafði verið vísað frá skemmtistaðnum en sneru aftur skömmu síðar með liðsauka og veittust að tveimur dyravörðum á staðnum.

Átökin hófust Austurstrætismegin, að sögn RÚV, og  bárust inn á Shooters og þaðan í gegn.

Dyravörðurinn sem slasaðist meira fannst liggjandi við útganginn Austurvallarmegin. Hinn dyravörðurinn meiddist lítið.

Mennirnir sem voru handteknir eru sagðir vera pólskir og hér á landi vegna vinnu.

Þeir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald seint í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert