Hæpið að krefjast megi bólusetninga

Leikskólabörn á ferð og flugi. Hæpið er að heimilt sé …
Leikskólabörn á ferð og flugi. Hæpið er að heimilt sé að gera bólusetningu að skilyrði fyrir leikskólavist. mbl.is/Eggert

Ákvörðun sveitarfélags um að meina börnum, sem ekki hafa verið bólusett, um vist í leikskólum væri byggð á veikum lagalegum grundvelli, telur Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ætlar að leggja það til í borgarstjórn að Reykjavíkurborg geri almennar bólusetningar að skilyrði við inntöku í leikskóla borgarinnar.

Aðkoma Alþingis nauðsynleg

Karen óskaði eftir lögfræðiáliti í desember 2016 frá bæjarlögmanni Kópavogs m.a. á því hvort sveitarfélögum væri heimilt að óska eftir bólusetningarvottorðum í skólum og leikskólum.

„Niðurstaða þess var sú að sveitarfélög hefðu ekki þá heimild samkvæmt lögum og það þyrfti lagabreytingu til og skýrari ramma á hvaða forræði þessi verkefni eru,“ segir Karen í samtali við mbl.is.

Karen finnst það vera góðra gjalda vert hjá Hildi að leggja þetta til en telur að það þurfi meira til.

„Ég held að Alþingi þurfi að taka þetta mál á sínar herðar til að veita sveitarfélögum þessa heimild,“ segir Karen sem er einnig varaþingmaður. Hún hefur hugsað sér að beita sér fyrir því að sveitarfélög fái slíka heimild komist hún á þing en veit ekki til þess að sitjandi þingmenn hafi það til skoðunar eins og er.

Bæjarlögmaður Kópavogs vann álit á því hvort bæjaryfirvöldum væri heimilt …
Bæjarlögmaður Kópavogs vann álit á því hvort bæjaryfirvöldum væri heimilt að krefja foreldra leikskólabarna um bólusetningarvottorð. mbl.is/Hjörtur

Niðurstaðan vonbrigði

Karen óskaði eftir umsögn bæjarlögmanns Kópavogs um það hvort Kópavogsbæ væri heimilt að krefjast þess að foreldrar barna í leik- og grunnskólum framvísi bólusetningarvottorðum.

Niðurstaða lögfræðideildar Kópavogsbæjar var sú að krafa um slíkt væri ekki málefnaleg þar sem skráning og miðlun upplýsinga um bólusetningu barna væri ekki í verkahring sveitarfélagsins og að um viðkvæmar persónuupplýsingar væri að ræða.

Í álitinu segir:

„Þar sem það er ekki í verkahring Kópavogsbæjar að skrá eða miðla upplýsingum um bólusetningar barna er vart hægt að færa rök fyrir því að það sé málefnalegt að biðja foreldra um að framvísa bólusetningarskírteini, enda er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða.“

„Það gæti því brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins, sem felur í sér að allar ákvarðanir verði að vera teknar á málefnalegum grundvelli, að biðja foreldra um að framvísa skírteininu.“

Eftir að álitið barst lýsti Karen niðurstöðunni sem vonbrigðum og skoraði á Alþingi að víkka heimildir sveitarfélaga til að krefjast bólusetningarskírteina við leikskóla- eða skóladvöl.

Óheimilt að miðla upplýsingum til annarra foreldra

Karen óskaði einnig eftir umsögn um það hvort heimilt væri að skrá upplýsingar um bólusetningar og hvort heimilt væri að láta foreldra bólusettra barna vita af óbólusettum börnum í sömu skólum, með nafnleynd. Þá vildi hún vita hvort Kópavogsbæ væri heimilt að veita fræðslu um mikilvægi bólusetninga.

Niðurstaða lögfræðideildarinnar var sú að ekkert af þessu væri heimilt.

Í álitinu segir m.a.: „Heilsugæslustöðvum og sóttvarnarlækni er falið lögum samkvæmt að skrá upplýsingar um bólusetningar eða ástæður þess að ekki hefur verið bólusett. Kópavogsbær getur því ekki tekið það hlutverk að sér.“

Þar segir einnig að Kópavogsbæ sé „líklega ekki heimilt að miðla upplýsingum um bólusetningar barna til annarra foreldra“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert