Hélt að kálfinn væri að springa

Þorbergur Ingi Jónsson við upphaf Ultra-Trail du Mont-Blanc á föstudag.
Þorbergur Ingi Jónsson við upphaf Ultra-Trail du Mont-Blanc á föstudag.

Þorbergur Ingi Jónsson vann enn eitt afrekið í ofurhlaupi í gær þegar hann hafnaði 32. sæti í einu af erfiðustu hlaupum heims, 170,1 km hlaupi í Ölpunum. Hækkunin í hlaupinu er um 10 km. 

Þetta er lengsta og um leið erfiðasta hlaupið sem Þorbergur Ingi hefur keppt í en hann hefur í tvígang keppt í öðru Mount-Blanc-of­ur­hlaup­i, CCC-hlaupinu, en það er 101 kílómetri auk þess sem hækk­un­in nam um 6.100 metr­um.

Alls eru Mount-Blanc-of­ur­hlaup­in fjög­ur tals­ins og er hlaupaleiðin sem Þor­berg­ur keppti í, UTMB Ultra-Trail du Mont-Blanc-hlaup­inu, sú lengsta og um leið erfiðasta. Þorbergur hafnaði í  sjötta sæti í CCC-hlaup­inu árið 2017, því fimmtánda árið 2015 auk þess að hafa hafnað í ní­unda sæti í heims­meist­ara­mót­inu í ut­an­vega­hlaup­um árið 2015. Hann á auk þess fjóra af bestum tímunum í Laugavegshlaupinu. 

Lýsingin á hlaupi Þorbergs Inga.
Lýsingin á hlaupi Þorbergs Inga. Af vef Ultra-Trail du Mont-Blanc (UTMB)

„Ég var að kynnast mörgu nýju í þessu hlaupi, svo sem næringarinntöku en hún er allt önnur í svona rosalega löngu hlaupi en í 100 kílómetra hlaupi. Mikil hækkun og langur tími í háfjallalofti sem er erfitt þegar maður er ekki almennilega aðlagaður, segir Þorbergur Ingi.

Þorbergur Ingi segist hafa lent í erfiðleikum eftir um það bil 110 kílómetra hlaup en hann tognaði á kálfa fimm dögum fyrir hlaupið.

„Ég var ekki viss um að geta hlaupið,“ segir Þorbergur Ingi en bróðir hans sem er sjúkraþjálfari kom út til hans og annaðist hann síðustu dagana fyrir hlaupið sem hófst á föstudag. 

Frá hlaupinu.
Frá hlaupinu. AFP

Fyrir hlaupið var Þorbergur teipaður vel og reyndi að hlífa fætinum. „En ég var oft að spá í að hætta því mér fannst eins og kálfinn á mér væri að springa. Svo komst ég yfir þetta en beitti mér vitlaust í staðinn,“ segir Þorbergur Ingi.

Vísar hann til þess að hann hafi reynt að hlífa meidda fætinum á kostnað hins sem jók álagið mjög á hinn fótinn. „Síðan sneri ég mig á þeim fæti og þá var ekkert annað í boði en að nota veika kálfann. Þannig að ég kláraði nánast bremsuvöðvana og svo lenti ég í vandræðum með næringuna og gat ekki nærst í marga klukkutíma,“ segir Þorbergur Ingi. 

Var eiginlega hættur eftir 140 km

Hann segir að fæturnir hafi eiginlega verið búnir í keppninni og hann lent á vegg. „Ég var eiginlega hættur eftir 140 kílómetra en ég er með mikið af góðu fólki í kringum mig þannig að þau hvöttu mig áfram að klára hlaupið þó svo að ég hafi gert það með helmingnum af sjálfum mér. Það var ekkert svakalega mikill kraftur í mér,“ segir Þorbergur. „En þegar þú ert kominn í svo langa vegarlengd þá er alltaf gott að klára sama hver þú ert,“ bætir hann við. 

Þegar Þorbergur var við það að gefast upp kom bróðir hans og nuddaði hann og að sögn Þorbergs náði hann að sofna í nokkrar mínútur. Það hafi eiginlega skipt sköpum þó svo mínúturnar hafi ekki verið margar þá hafi hugurinn hreinsast við þetta og hann verið reiðubúinn til þess að halda áfram og klára hlaupið.

Við rásmark Ultra-Trail du Mont-Blanc (UTMB) á föstudaginn en í …
Við rásmark Ultra-Trail du Mont-Blanc (UTMB) á föstudaginn en í hlaupinu er hlaupið kringum Mont-Blanc um þrjú lönd, Frakkland, Ítalíu og Sviss. AFP

Það er ekkert sjálfgefið í svo löngu hlaupi að ná að komast í mark. Alltaf sé hætta á að lenda í einhverju sem getur bugað þig, segir Þorbergur. Hann hljóp á 25:57:11 og hafnaði eins og áður sagði í 32 sæti. 

„Þetta er fínn tími þrátt fyrir að ég viti að við fullkomnar aðstæður og allt gengur upp þá kemst ég hraðar.“

Þetta er allt annað en 100 kílómetra hlaup að sögn Þorbergs Inga. Það hlaup taki 11-13 klukkutíma á meðan þetta hlaup taki á annan sólarhring. Hann hafi gert þau mistök varðandi næringuna í hlaupinu nú að hafa hana svipaða og í keppni sem tekur kannski 10-12 klukkustundir. „Ég hef alltaf verið í sykri og kolvetnum sem gengur alveg í 10-12 tíma. En þegar þú hleypur lengur em það þá gengur það ekki alveg upp,“ segir hann.

Seint í hlaupinu fór Þorbergur að borða pylsur og osta og leið honum miklu betur við það þrátt fyrir að fæturnir hafi verið búnir undir lok hlaupsins. 

Nú tekur hvíld við hjá Þorbergi Inga en hann segist vera hvergi nærri hættur í svo löngum og krefjandi hlaupum. „Þetta var frumraunin og ég á eftir að gera betur,“ segir Þorbergur Ingi þegar mbl.is ræddi við hann í dag.

Auk Þorbergs Inga keppti Guðmundur Ólafsson í hlaupinu og lauk hann keppni í morgun. Guðmundur hljóp á 41:46:26 og hafnaði í sæti 958 en alls hóf 2.581 keppni á föstudag.  Alls luku 1575 keppni.

Frá Ultra-Trail du Mont-Blanc (UTMB).
Frá Ultra-Trail du Mont-Blanc (UTMB).
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert