Mikil óvissa um fjölda hælisleitenda

Húsnæði Útlendingastofnunar.
Húsnæði Útlendingastofnunar. mbl.is/Hari

Heildarútgjöld dómsmálaráðuneytisins vegna málefna útlendinga árið 2019 eru áætluð rúmir 3,6 milljarðar króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og lækki um 39 milljónir króna frá fjárlögum þessa árs, að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum,  í samræmi við aðhaldskröfu gildandi fjármálaáætlunar.

Heildarútgjöld velferðarráðuneytisins vegna málefna innflytjenda og flóttafólks eru áætluð tæplega 647 milljónir króna og hækka um 216 milljónir frá gildandi fjárlögum að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 20 milljónum króna.

Fram kemur í frumvarpinu að aukin útgjöld velferðarráðuneytisins skýrist af hækkaðri fjárheimild vegna móttöku á flóttamönnum í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Nemur hækkunin 220 milljónum króna en á móti eru útgjöld til málaflokksins lækkuð um 4 milljónir króna í samræmi við gildandi fjármálaáætlun. Fjárlög 2018 gerðu ráð fyrir um 411 milljónum til málaflokksins.

Ennfremur er gert ráð fyrir 181 milljónar króna hækkun á framlagi til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði sveitarfélaga vegna  aðstoðar við fólk sem fengið hefur hæli á Íslandi.

Þá er fjármálaráðherra veitt heimild til þess að taka á leigu fasteignir fyrir búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar til þess að koma til móts við „stórauknar þarfir“ stofnunarinnar fyrir skammtímabúsetu  fyrir hælisleitendur á vegum hennar.

Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að mikil óvissa sé um fjölda umsækjenda um vernd og samsetningu hópsins. Þrátt fyrir fækkun umsókna frá öruggum upprunaríkjum berist engu að síður enn fjöldi umsókna sem krefjist umfangsmikillar málsmeðferðar.

„Sveiflum í málaflokknum, bæði hvað varðar fjölda og eðli mála, fylgir tilheyrandi ófyrirsjáanleiki varðandi kostnað. Með hraðari málsmeðferð má lækka kostnað við þjónustu. Slíkt lækkar kostnað til lengri tíma en auka þarf við bjargir í málsmeðferð til að það náist.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarpið í morgun.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarpið í morgun. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert