Velferðarráðuneyti skipt í tvö ráðuneyti

Velferðarráðuneytið.
Velferðarráðuneytið. mbl.is/Eggert

Velferðarráðuneytinu verður skipt upp í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, jafnréttismál munu færast á ábyrgð forsætisráðuneytisins og málefni mannvirkja færast úr umhverfisráðuneyti í félagsmálaráðuneyti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.

Markmiðið með breytingunum er að skýra verkaskiptingu, skerpa pólitíska forystu og skapa aukin sóknarfæri í málaflokkum sem ríkisstjórnin hefur í forgangi. Tillaga til þingsályktunar þessa efnis hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og verður hún lögð fyrir Alþingi, að því er segir í tilkynningunni.

Með breytingunni fjölgar ráðuneytum úr níu í tíu.

Ráðgert er að embættistitill ráðherra nýs félagsmálaráðuneytis verði félags- og barnamálaráðherra og endurspeglar það áform stjórnvalda um aukna áherslu á málefni barna og ungmenna.

Undirbúningur að breyttri skipan ráðuneyta hefur staðið yfir í sumar og hefur forsætisráðuneytið leitt vinnuna í samráði við hlutaðeigandi ráðherra.

Stefnt er að því að nýr forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti og nýr forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta með breytingunum komi til framkvæmda 1. janúar 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert