Samkomulag ríkis og borgar brotið

Tvær herflugvélar fluttu ráðherra og þingmenn á flugmóðurskipið USS Harry …
Tvær herflugvélar fluttu ráðherra og þingmenn á flugmóðurskipið USS Harry S. Truman í dag. Mynd úr safni. AFP

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ljóst að samkomulag ríkis og borgar frá 2013, þar sem kveðið var á um að allri umferð herflugvéla og flugi í þágu hertengdrar starfsemi skyldi hætt, hafi verið brotið í dag þegar flogið var með utanríkisráðherra og nokkra þingmenn í utanríkismálanefnd um borð í flugmóðurskipið USS Harry S. Truman.

Þetta kom fram í viðtali sem Stöð 2 tók við borgarstjóra í dag. Að hans sögn var borginni ekki gert viðvart um áætlanirnar.

Flogið var með tveimur Grumman C2 Grayhound-flutningavélum frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 13 í dag í flugmóðurskipið sem staðsett er utan landhelgi Íslands en innan efnahagslögsögu landsins.

Mbl.is hafði samband við Landhelgisgæsluna vegna málsins, en upplýsingafulltrúi hennar vísaði á utanríkisráðuneytið. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins staðfesti í samtali við blaðamann að utanríkisráðherra og starfsmenn varnarmálaskrifstofu hafi fengið boð um að heimsækja flugmóðurskipið.

Að sögn Dags verður málið rannsakað og skýringa óskað á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert