Lögregla þurfi að gæta meðalhófs

Mennirnir koma frá Úkraínu en framvísuðu litháískum vegabréfum.
Mennirnir koma frá Úkraínu en framvísuðu litháískum vegabréfum. Af Wikipedia

„Það þarf að vera skýrt hver aðild hvers og eins er þegar menn eru nafngreindir í svona fréttum. Ef það hefur legið fyrir að þetta eru úkraínskir menn með litháísk vegabréf og vinnuveitandinn var handtekinn, þá þarf að skoða það. Hvernig í ósköpunum átti hann að hafa eitthvað með það að gera?“ segir Tryggvi Agnarsson, lögmaður Ingimars Skúla Sævarssonar, eiganda og framkvæmdastjóra Manngildis.

Ingimar Skúli var handtekinn í gærmorgun ásamt níu erlendum starfsmönnum Manngildis. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn staðfestir í samtali við mbl.is að um úkraínska menn með litháísk vegabréf hafi verið að ræða, en þeir eru grunaðir um skjalafals.

Tryggvi setur spurningamerki við vinnubrögð lögreglu í málinu, en fjöldi lögregluþjóna tók þátt í aðgerðum sem fram fóru samtímis í Kópavogi og í Reykjavík. Tíu voru handteknir, auk þess sem húsleit var gerð og hald lagt á gögn fyrirtækisins. Þá var Ingimar Skúli ekki upplýstur um hvenær meint brot eiga að hafa átt sér stað við yfirheyrslu.

Tryggvi segir furðulegt að menn eigi að svara fyrir atvik sem þeir eru ekki upplýstir um hvenær áttu sér stað.

Uppsetningin meiðandi fyrir vinnuveitandann

Eftir að þeim handteknu var sleppt kom í ljós um hvaða starfsmenn Manngildis var að ræða, en Ingimar Skúli hafði ekki fengið um það upplýsingar hjá lögreglu. Tryggvi segir að brugðist verði við því innan fyrirtækisins.

Hann segir starfsemi Manngildis í uppnámi vegna málsins og ekki síst vegna þess hvernig framkvæmt var í málinu og hvernig greint var frá því. „Það þarf að bregðast við þessu. Við eigum eftir að bera saman bækur okkar, þetta er rosalega meiðandi fyrir vinnuveitandann hvernig þetta er sett upp.“

„Lögregla þarf að hyggja að því að gæta meðalhófs, fara ekki of harkalega að og huga að þeim sem að standa. Það er alveg svakalegt ef saklaust fólk situr í súpunni útaf öðrum sem eru að brjóta af sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert