Nýjar þyrlur kynntar Gæslunni

Fram undan er útboð vegna þyrlukaupa fyrir Landhelgisgæsluna. Undanfarna daga hafa fulltrúar bresk-ítalska þyrluframleiðandans Leonardo verið hér á landi og kynnt AW 189-þyrluna fyrir Landhelgisgæslunni. Í dag gafst fjölmiðlum kostur á skoðun en breska strandgæslan keypti slíkar þyrlur á dögunum.

Sigurjón Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Scandinavian Aricraft Marketing, kynnti þyrluna ásamt ítölskum fulltrúum fyrirtækisins fyrir fjölmiðlum í dag. Hann á von á því að fleiri framleiðendur muni fylgja í kjölfarið og kynna þyrlur sínar hér. Hann vildi ekki gefa upp verð á slíkri þyrlu en segir að þær verði á mjög samkeppnishæfu verði.

AW 189-þyrlan var kynnt á markað árið 2011 og sú fyrsta tekin í notkun árið 2014 en framleiðsla fer fram bæði á Ítalíu og í Bretlandi. Breska strandgæslan keypti á dögunum 11 slíkar þyrlur eftir útboð og um 60 slíkar eru í notkun í dag þar á meðal í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert