OR fái „heiðursverðlaun í meðvirkni“

Tæpar tvær vikur eru síðan Áslaug Thelma fundaði með settum …
Tæpar tvær vikur eru síðan Áslaug Thelma fundaði með settum forstjóra OR, Helgu Jónsdóttur. mbl.is/Eggert

Mánuður er liðinn síðan Áslaugu Thelmu Einarsdóttur var sagt upp hjá Orku náttúrunnar og enn hefur hún ekki fengið útskýringar á uppsögninni né afsökunarbeiðni. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Einars Bárðarsonar, eiginmanns Áslaugar Thelmu. Þá hefur enginn í stjórn ON eða yfirmenn Orkuveitu Reykjavíkur þakkað henni fyrir að stíga fram.

Tæpar tvær vikur eru síðan Áslaug Thelma fundaði með settum forstjóra OR, Helgu Jónsdóttur, og var Áslaug Thelma bundin trúnaði um það sem fram fór á fundinum. Í færslu sinni segir Einar að væntanlega þurfi þó ekki að halda trúnaði yfir því sem ekki fór fram. Áslaug Thelma hafi ekki fengið útskýringu á uppsögninni, hún hafi ekki verið beðin afsökunar á uppsögninni og henni var ekki þakkað fyrir að þora að stíga fram. Þá stendur uppsögn hennar enn og starfslok hennar hafa ekki verið endurskoðuð.

Einar segir að vegna trúnaðarins hafi margir dregið þá ályktun að einhvers konar samningaviðræður væru í gangi, en að svo sé ekki. „Engar samningaviðræður eða tilraunir til samninga fóru fram á fundinum.“

„Eftir situr á sorglegan hátt sú staðreynd að hjá OR fá dónar og káfarar starfslokasamninga og svigrúm til að fara í meðferð en konur sem láta ekki bjóða sér dónaskap og eru sendar í rannsókn hjá Innri Endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Þetta kallar á einhverskonar heiðursverðlaun í meðvirkni.“

Jafnframt segir Einar engan vafa leika á því að Áslaug Thelma sé sigurvegari. Hún hafi lagt allt sitt á vogarskálarnarnar fyrir Metoo-hreyfinguna og sé konum í öllum stéttum innblástur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert