Algengt að plöntur séu höfundarréttarvarðar

Strá­in við bragg­an í Naut­hóls­vík eru af dún­mel­s­teg­und.
Strá­in við bragg­an í Naut­hóls­vík eru af dún­mel­s­teg­und. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stráin sem gróðursett voru við braggann við Nauthólsveg eru af dúnmelstegund. Þetta segir Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður sem kveður sér þó ekki kunnugt um hvaða yrki sé þar á ferðinni.

Mikla athygli hefur vakið að gras­strá sem gróður­sett voru í kring­um braggann við Nauthólsveg 100 hefðu kostað 757 þúsund krón­ur, að því er DV greindi fyrst frá, og að ástæða kostnaðar­ins væri sú að strá­in séu höf­und­ar­var­in.

End­ur­gerð bragg­ans við Naut­hóls­veg hef­ur verið mjög um­deild, en kostnaður við fram­kvæmd­irn­ar fór langt fram úr áætl­un. Upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir að kostnaður­inn yrði 158 millj­ón­ir, en heild­ar­kostnaður varð 415 millj­ón­ir.

Náskyldur melgresinu

Dúnmelur kemur að sögn Hafsteins frá vesturströnd Norður-Ameríku. „Þar nær hún frá Kaliforníu og norður eftir og yfir um norðurhvelið til Grænlands.  Þetta er tegund sem er náskyld melgresinu okkar og fyrir nokkrum áratugum var verið að reyna að sá henni hér,“ segir hann og kveður það m.a. hafa verið gert á aurunum neðan við Fljótshlíðina og víðar. Dúnmelurinn virðist þó síðar hafa horfið líkt og melgresið gerir er land nær jafnvægi og það hættir að berast þangað sandur. „Þá hættir plantan að þrífast. Hún þarf að vera í einhverju sem er á hreyfingu.“

Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður segist forvitin að vita hvaða yrki dúnurtar …
Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður segist forvitin að vita hvaða yrki dúnurtar hafi verið gróðursett við braggann. Ljósmynd/Aðsend

Hafsteinn kveðst vissulega vera forvitinn um hvaða yrki dúnmels hafi verið gróðursett við braggann. „Ég ætlaði nú að hafa samband við arkitektinn og fá að vita hvaða klóni þetta væri sem þarna er fluttur inn,“ segir hann.

Tekur tíma og peninga að fá plöntur höfundarréttarvarðar

Algengt er hins vegar að sögn Hafsteins að plöntur séu höfundarréttarvarðar, líkt og er í tilfelli dúnmelsins við braggann. „Þá þurfa hins vegar að koma til einhverjar kynbætur, eða úrval,“ segir hann. Höfundarréttarlaun séu þá greidd fyrir hvert framleitt eintak. „Þetta þarf að fara í gegnum stjórnvöld og einkaleyfisskráningu, tekur langan tíma og kostar mikinn pening.“

Hann segir mjög algengt að þetta sé gert í Ameríku og þar geti innflytjandi til dæmis fengið réttinn á nýrri plöntu sem flutt sé inn frá Evrópu. Hafsteinn kveðst telja að svipaða heimild sé einnig hægt að fá í Evrópusambandsríkjum. „Upphaflega er þetta þó hugsað þannig að einhver sem er að kynbæta plöntur, t.d. rósir eða epli, og sem kemur fram með eitthvað sem er öðruvísi, betra og eftirsóttara en það sem áður hefur verið í boði geti fengið greitt fyrir þá sérstöðu fáist hún viðurkennd.“

Viðkomandi getur þá fengið fullt einkaleyfi í sjö ár, þar sem hann fær t.d. um 15 kr. greiddar fyrir hverja plöntu. Hægt er að fá framlengingu á einkaleyfinu í tvígang um sjö ár í senn og lækkar greiðslan fyrir plöntuna um helming við hverja framlengingu.

Á svartlista Náttúruverndarstofnunnar

Að sögn Hafsteins er dúnmelurinn á skrá Náttúrverndarstofnunar yfir svartlistaðar tegundir. „Sá listi hefur aldrei verið löggiltur, en á honum er fullt af plöntum sem eru erlendar og ágengar.“ Hann segir dúnmelinn vera á  bannlista á mörgum ríkjum Evrópu, en hann geti verið ágengur á ákveðnum stöðum.

„Mér skilst þó á því sem gerðist hér áður fyrr, er dúnmelnum var sáð hér með erlendu fræi að þá hafi hann ekki náð að dreifa sér með fræjum,“ segir Hafsteinn og kveður dúnmelinn engu að síður hafa skriðið.

„Hann var forvitnilegur og melgresið líka, vegna þess að þau tilheyra eiginlega korntegundum og hægt er að blanda hveiti og dúnmel og hveiti og melgresi til að fá aðra korngerð, en það held ég að sé nú ekki í þessu tilviki,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert