Þörf á nýju verklagi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Eggert Jóhannesson

„Það er léttir að þetta er búið. Þetta voru virkilega erfið mál.“ Þetta segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í dag þar sem ríkið var dæmt til að greiða tveimur lögreglumönnum hjá embættinu bætur.

Annars vegar var um að ræða Aldísi Hilmarsdóttur aðstoðaryfirlögregluþjón vegna breytinga sem gerðar voru á störfum hennar árið 2016. Henni voru dæmdar 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna tilfærslu í starfi og eineltis sem hún taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu lögreglustjóra og 366.720 krónur, sem svara kostnaði hennar vegna innlagnar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, sem fallist var á að væri bein afleiðing af þeirri ákvörðun sem hún sætti. Alls greiðir ríkið henni því tæpar 1,9 milljónir króna.

Hins vegar er um að ræða lögregluþjón sem sakaður hafði verið um brot í starfi og var veitt tímabundin lausn frá störfum. Honum voru dæmdar 1,5 milljónir í bætur.

„Mér þótti mál Aldísar sérstaklega erfitt, það hefur tekið á, ekki síst vegna mikillar opinberrar umræðu. En ég verð að segja að dómur Hæstaréttar í því máli kom á óvart vegna þess að héraðsdómur var svo afdráttarlaus,“ segir Sigríður Björk. „En staðfest hefur verið að Aldísi hefði aldrei verið sagt upp, eins og haldið hefur verið fram, enda hefur ekki verið ráðið í starfið hennar, heldur hefur verið leyst af í því með tímabundnum ráðningum.“

Hvetur Aldísi til að koma aftur til starfa

Sigríður segir að eitt af því sem skoða verði í framhaldinu sé skráning mála innan embættisins. Ljóst sé að við meðferð þessara mála þurfi nú að gera nýtt verklag. „Þetta er eitt af því sem við verðum að vega og meta.“

Lögreglufulltrúinn sem um ræðir kom strax aftur til starfa hjá embættinu eftir að ljóst var að hann hafði ekki brotið af sér í starfi. Aldís hefur ekki starfað þar frá árinu 2016. Sigríður segir að á þeim tíma sem liðinn sé síðan þá hafi verið skorað á Aldísi að snúa aftur til starfa. Það muni einnig verða gert núna þegar dómur liggur fyrir.

Hefur þú, eða einhver annar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, haft samband við Aldísi eftir að dómurinn féll? „Nei, það hefur ekki verið gert. En ég býst við að hafa samband við Aldísi á morgun og hvetja hana til að snúa aftur til starfa.“

Hafa þessir dómar og/eða umfjöllun um þá áhrif á þína stöðu? „Ég á ekki von á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert