Náði besta tíma ársins í Lissabon

Anna Berglind með bróður sínum Hauki eftir hlaupið. Eftirköst fellibylsins …
Anna Berglind með bróður sínum Hauki eftir hlaupið. Eftirköst fellibylsins í nótt kunna að hafa gefið Önnu meðbyr fremur en mótvind, sé mið tekið af árangrinum. Ljósmynd/Aðsend

Anna Berglind Pálmadóttir bætti sitt persónulega met í götumaraþoni í Lissabon í morgun. Hún fór það á 3:04:13, sem er langbesti tími íslenskra kvenna á árinu. Anna Berglind átti raunar besta árstíma kvenna fyrir þetta hlaup, en það var 3:11:14 í Reykjavíkurmaraþoni í sumar. Í gær kom fellibylurinn Leslie upp að ströndum Portúgal, en hann hafði ekki áhrif á hlaupið.

Anna var hæstánægð þegar mbl.is hafði samband við hana símleiðis til Portúgal. „Þetta var bara frábært hlaup. Þetta þykir góður tími og ég er bara hress. Ekkert að fara upp í rúm að leggja mig eða bíða neitt af mér,“ sagði Anna við blaðamann.

En hvernig hyggst Anna fagna árangrinum?

„Ég ætla bara að fara út að borða og hafa það kósý. Ég er hérna með hópi Íslendinga. Ég skrapp bara hingað út um helgina til að hlaupa og verð túristi á morgun og fer svo heim á þriðjudag.“

Í nótt var fellibylur í Portúgal og storminn lygndi snemma í morgun. Hann hlaut þó að setja sitt mark á maraþonið, eða hvað?

„Þetta kom svo sem ekki að sök. Það var alveg vindur en ekkert óveður. Það var bara sól framan af og mjög heitt. Þetta voru enda engar sjáanlegar hamfarir hérna. Borgin er ekki á hvolfi,“ sagði Anna.

Nú í Lissabon-maraþoninu var hún í fyrsta sæti í sínum aldursflokki, 35-39 ára, og í 10. sæti allra kvenna í hlaupinu. Með þessum árangri sínum gengur hún í raðir fremstu íslensku kvenna í maraþonhlaupum. Hún er í áttunda sæti íslenskra kvenna í gervallri afrekaskránni og bætir þar að auki metið sitt síðan í sumar. 

Mbl.is tók viðtal við Önnu í sumar þegar hún lenti í fyrsta sæti í utanvegahlaupi á Tenerife, sem er hennar sérgrein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert