„Mjög alvarleg orð frá Hæstarétti“

Snorri dregur ósjálfrátt þá ályktun að það skipti máli um …
Snorri dregur ósjálfrátt þá ályktun að það skipti máli um hvern er að ræða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna, segir mikilvægt að halda því til haga að Hæstiréttur hafi gert alvarlegar athugasemdir við embættisfærslur Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í málum tveggja lögreglumanna. Öðrum lögreglumanninum var vikið tímabundið frá störfum en hinn var færður til í starfi. Hefði almennur lögreglufulltrúi fengið sömu útreið og lögreglustjóri fékk fyrir Hæstarétti væri hann líklega orðinn mjög valtur í sínu starfi, að mati Snorra.

Hæstiréttur kvað upp dóma í málunum í síðustu viku og var ríkið dæmt til að greiða lögreglumönnunum bætur. Annar þeirra snéri aftur til starfa hjá lögreglunni en hinn fór til annarra starfa. Snorri segir Landsamband lögreglumanna fagna niðurstöðu Hæstaréttar í málunum.

Í öðru málinu voru Aldísi Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dæmdar tæpar 1,5 milljónir í miskabætur vegna tilfærslu í starfi og eineltis sem hún taldi sig hafa orðið fyrir. Þá var ríkinu einnig gert að greiða henni rúmar 360 þúsund krónur vegna innlagnar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, enda hafi innlögnin verið bein afleiðing af þeirri ólögmætu ákvörðun sem hún sætti. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ákvörðun lögreglustjóra hafi verið meiðandi fyrir Aldísi, ásamt því að vega að æru hennar og persónu. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað ríkið í málinu.

Í hinu málinu  staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögreglumaður, sem veitt hafði verið veitt lausn frá starfi vegna meintra brota í starfi, ætti rétt á 1,5 milljónum í miskabætur vegna ákvörðunarinnar. Áður hafði farið fram rannsókn á ásökunum á hendur honum og var niðurstaðan sú að hann hefði ekki gerst brotlegur í starfi.

Væri farið að hitna vel undir almennum fulltrúa

„Það er hægt að lesa það úr niðurstöðu dómsins að það er ekki farið að lögum í ákvörðunum í þessu sambandi. Og í báðum málunum þá kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, og segir beint í máli lögreglufulltrúans, að með ákvörðun lögreglustjóra hafi verið vegið mjög að starfsheiðri hans og æru. Í máli Aldísar segir Hæstiréttur að ákvörðunin hafi vegið að æru hennar og persónu. Þetta eru mjög alvarleg orð frá Hæstarétti Íslands,“ segir Snorri í samtali við mbl.is.

Sigríður Björk segist ekki telja að niðurstaða Hæstaréttar hafi áhrif …
Sigríður Björk segist ekki telja að niðurstaða Hæstaréttar hafi áhrif á stöðu hennar sem lögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk hefur sagt að hún telji að niðurstaða Hæstaréttar í málunum tveimur komi ekki til með að áhrif á hennar stöðu sem lögreglustjóra.

 Aðspurður hvort hann telji eðlilegt að málið hafi engin eftirmál, segir Snorri mikilvægt að horfa til stöðu almennra lögreglumanna. „Ef ákvarðanir eða framkvæmdir okkar á vettvangi hlytu slíka niðurstöðu fyrir Hæstarétti Íslands, þá er ég svolítið hræddur um að það væri farið að hitna vel undir þeim lögreglufulltrúa í starfi. Hann væri örugglega ekki enn í starfi, án þess að ég geti fullyrt það. Ég set hlutina bara í þetta samhengi.“

Hann segist því ósjálfrátt draga þá ályktun að það skipti máli um hvern er að ræða. „Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið farið að lögum. Það er að vísu engum gerð refsing í málinu. Eigi að síður er ekki farið að lögum við ákvarðanatöku um hliðsetningu annars vegar og brottvikningu að hluta úr starfi hins vegar. Þannig þetta voru mjög alvarlegar ákvarðanir sem voru teknar og hafa haft íþyngjandi áhrif á þá sem þeim fyrir þeim urðu.“

Sæir þú sjálfan þig labba til baka í starfið?

Í máli Aldísar fyrir dómstólum voru meðal annars lögð fram gögn frá framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og sálfræðingi sem hafði fengið hana til sín. Voru þessir aðilar sammála um að Aldís hefði orðið fyrir gríðarlegu áfalli í starfi. Hún lýsti miklum einkennum þunglyndis, kvíða, álags, kulnunar og áfallastreitu. Sálfræðingurinn sagði meðal annars að „mikið traustrof hafi átt sér stað og starfsumhverfi, sem áfrýjandi hafi upplifað áður sem öruggt, orðið ótraust og varhugavert. Í kjölfarið hafi áfrýjandi misst mikið sjálfstraust, verið svipt framtíðarvon á sínum starfsvettvangi og upplifað mikinn vanmátt gagnvart aðstæðum og mögulegri framtíð.“

Aldís hefur ekki starfað hjá embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2016, en Sigríður hefur ítrekað að sagt að hún hafi skorað á hana að snúa aftur til starfa. Eftir að dómur féll í síðustu viku sagðist hún ætla hafa samband við Aldísi og hvetja hana til að koma aftur til starfa.

Fyrir liggja gögn um að málið hafi haft mikil áhrif …
Fyrir liggja gögn um að málið hafi haft mikil áhrif á andlega líðan Aldísar. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurður hvort hann telji að Aldísi væri fært að snúa aftur til starfa eftir það sem á undan er gengið segir Snorri fólk geta reynt að setja sig í spor hennar. „Ef þinn yfirmaður kæmi fram með þessum hætti, sæir þú sjálfan þig labba til baka í starfið þitt, eins og ekkert hefði í skorist? Maður þarf í sjálfu sér ekki leita lengra nema skoða málið út frá eigin brjósti.“ Hann segist þó ekki geta svarað þessu fyrir hönd Aldísar. „Hæstiréttur kemst að þessari lagalegu niðurstöðu málsins, en mælir ekkert fyrir um hvernig skuli unnið áfram með það.“

Segir verklagið mjög skýrt

Þá hefur Sigríður sagt að ljóst sé að gera þurfi nýtt verklag og að skoða verði skráningu mála innan embættisins. Snorri segir verklag í svona málum hins vegar vera mjög skýrt í starfsmannalögum. „Það ber að fara að lögunum en það var ekki gert. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að hvorugt málið var nógu vel rannsakað af lögreglustjóra áður en ákvörðun var tekin í málunum. Þetta hefur ekkert með verklag að gera.“

Snorri segir Landsamband lögreglumanna nú vera að skoða niðurstöðu málanna í samvinnu við sína lögmenn. Það sé hins vegar ekki komin endanleg niðurstaða varðandi það hvort eða eitthvað verði að gert. „Þessi niðurstaða liggur engu að síður fyrir og dómurinn er mjög afdráttarlaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert