Æft á morgun í Valsheimilinu

Hluti minjasafns Vals var geymdur í kjall­ar­an­um. Tjón á því …
Hluti minjasafns Vals var geymdur í kjall­ar­an­um. Tjón á því virðist nú ekki jafnmikið og óttast var í fyrstu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það verður æft á morgun í Valsheimilinu,“ segir Lárus Blöndal Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals, í samtali við mbl.is. Ljós komst aftur á á Hlíðarenda á níunda tímanum í kvöld, eftir mikið vatnstjón í húsinu.

Þegar þjálfarar Vals mættu klukkan sex í morgun til þess að undirbúa morgunæfingar mættu þeir miklum vatnsflaumi þegar þeir fóru niður í kjallara til að sækja bolta og var slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fengið á staðinn til að dæla út vatni.

Valsheimilið var lokað í dag, enda bæði rafmagns- og vatnlaust, og voru rafvirkjar að störfum í húsinu fram á kvöld við að koma á rafmagni á ný og tókst það, líkt og áður sagði nú á níunda tímanum.

Spurður um ástæðu vatnstjónsins segir Lárus hana mega rekja til kaldavatnsinntaks í húsinu. „Hluti af því inntaki fer í vökvunarkerfi á aðalvellinum. Það fór hins vegar samsetning í þessum rörum sem var til þess að kalda vatnið braust inn í geymslurými í kjallara með þessum afleiðingum.“

Vinna er hafin við að meta tjónið. Erfitt er meta það í krónum talið að sögn Lárusar. „Það er þó alveg ljóst að þetta er milljóna tjón,“ segir han og telur öruggt að það fari yfir tíu milljónir. 

„Það jákvæða í þessu er að okkur sýnist nú að skaði á munum úr minjasafninu sé ekki jafnmikill og við vorum að óttast. Það er jákvætt því þetta eru munir sem ekki er hægt að bæta.“ Hluti minjasafnsins var geymdur í kjall­ar­an­um, þar á meðal mál­verk, bæk­ur og mynd­ir úr starfi fé­lags­ins.

„Það sem að verra er er að það er meiri skaði í efnislegum eignum eins og tölvubúnaði, rafmagni og öðru slíku.“ Lárus segir þó enn verið að meta stöðuna. „Þarna var líka teygjuherbergi með dýnum sem fór illa og verður sennilega ekki notað meira, en annars voru þetta geymslur, boltahús og geymslur fyrir húsmuni og ýmislegt. Þannig að það er tjón þar á íþróttavörum og öðru slíku.“

Tryggingarnar nái þó yfir tjónið og það sé mikill léttir.

Búið er að dæla út mestöllu vatninu og eru hitablásarar búnir að vera á fullu á Hlíðarenda í dag. „Það er búinn að vera stanslaus blástur í dag. Við erum með  rafstöð sem er að knýja bæði dælur og blásara,“ segir Lárus.

Hann hefur orðið var við mikinn samhug hjá félagsmönnum eftir lekann. „Ekki bara hjá félagsmönnum, heldur líka hjá íþróttafólki og okkar stuðningsaðilum sem hafa verið boðnir og búnir að aðstoða okkur ef við þurfum á að halda. Við þökkum kærlega fyrir þann stuðning sem við höfum fengið, en við höfum fundið fyrir velvild hjá öllum sem að hafa komið,“ segir Lárus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert