Allt að komast í eðlilegt horf

Leikið verður í Valsheimilinu á morgun.
Leikið verður í Valsheimilinu á morgun. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Hér eru æfingar á fullu inni í sal,“ segir Lárus Blöndal Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals. Mikið vatnstjón varð á Hlíðarenda í gær en slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þurfti að dæla út vatni úr kjallara.

Lárus segir að öll starfsemi í húsinu sé komin í gang en framundan sé mikil vinna við að fara yfir atburði gærdagsins. „Hér eiga á að vera þrír leikir á morgun, þar á meðal í Olís-deild karla, og við sjáum ekki annað en að þeir verði hér.

Ljós komust aftur á í Valsheimilinu á níunda tímanum í gærkvöld en það var lokað í gær, enda bæði rafmagns- og vatnslaust. 

Lárus segir að það muni taka langan tíma að meta nákvæmlega það tjón sem Valsarar urðu fyrir vegna vatnstjónsins en sagði í gær að tjónið færi örugglega yfir tíu milljónir króna. „Það er enn verið að blása niðri og við eigum eftir að vega og meta ástandið á þeim hlutum sem þar eru og líka ástandið á gólfi og öðru slíku.

Ljóst er að mikið af þeim hlutum og búnaði sem var í kjallaranum er meira og minna ónýtt. „Þá erum við til að mynda að tala um rafmagn, tölvubúnað og þvottavélar,“ segir Lárus. Tryggingar ná yfir tjónið og Lárus segir að VÍS hafi staðið sig gríðarlega vel í málinu.

Hluti minjasafns Vals var geymdur í kjall­ar­an­um.
Hluti minjasafns Vals var geymdur í kjall­ar­an­um. mbl.is/Árni Sæberg

Skaði á munum úr minjasafni Vals er ekki jafn mikill og óttast var í upphafi. Lárus segir að stór hluti af verðmætustu minjum félagsins hafi ekki blotnað. „Við vorum búnir að setja hluta af því á Borgarskjalasafn og svo eru verðmætustu hlutirnir ekki í geymslu. Auðvitað er einhver skaði og einhverjar minjar hafa skemmst en við teljum þetta ekki jafn alvarlegt og við óttuðumst í fyrstu,“ segir Lárus.

Valsarar eru þekktir fyrir að vera gríðarlega samheldinn hópur og segir Lárus að það hafi bersýnilega komið í ljós í gær. Stuðningurinn hafi þó komið úr ýmsum áttum. „Við fengum góðan stuðning frá samstarfsfyrirtækjum og öðrum aðilum í íþróttahreyfingunni. Við fengum boð um aðstoð frá fullt af fólki úti í bæ og erum mjög þakklátir fyrir það,“ segir Lárus og tekur fram að Valsarar láti þetta ekki slá sig út af laginu.

„Við reynum að koma í veg fyrir að eitthvað svipað þessu gerist aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert