Rangar ályktanir um launamun kynja

Sigríður Á. Andersen segir mikilvægt að fyrirliggjandi gögn um launamun …
Sigríður Á. Andersen segir mikilvægt að fyrirliggjandi gögn um launamun kynjanna séu ekki mistúlkuð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að launakannanir séu of takmarkaðar í eðli sínu til að slá nokkru föstu um kynbundið misrétti er kemur að launum. Hún segir að þær ályktanir sem dregnar eru af tölum Hagstofunnar um meðalatvinnutekjur karla og kvenna á vef Kvennafrídagsins séu beinlínis rangar.

Þetta segir Sigríður á Facebook-síðu sinni og bendir einnig á að ungar konur á aldrinum 18-27 ára sem starfi hjá hinu opinbera, fái hærri laun en karlar á sama aldri. Þær mæti því „væntanlega aðeins fyrr til vinnu í fyrramálið“.

Á vef Kvennafrídagsins kemur fram að þar sem meðalatvinnutekjur kvenna nái einungis 74% af meðalatvinnutekjum karla, fái konur 26% minna greitt að meðaltali en karlar fyrir störf sín. Af þeirri ástæðu gengu konur um allt land frá vinnu sinni kl. 14:55 í dag, þegar 74% vinnudagsins voru að baki.

Leiðréttur launamunur kynja um 5%

„Tölfræði Hagstofunnar um atvinnutekjur manna tekur ekki tillit til vinnu manna, vinnutíma, menntunar, reynslu, mannaforráða eða annarra þátta sem jafnan er litið til í launakönnunum sem gerðar eru til að kanna kynbundin launamun,“ segir Sigríður og bætir við að í könnunum um kynbundin launamun, þegar leiðrétt sé fyrir þessum mælanlegu þáttum, standi eftir um 5% tölfræðilega marktækur launamunur á kynjum, körlum í vil.

Sigríður skrifar færslu á Facebook og vitnar í skýrslu frá velferðarráðuneytinu um launamun karla og kvenna, máli sínu til stuðnings, en þar segir meðal annars launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veiti ekki svar við.

„Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis,“ segir í skýrslu ráðuneytisins.

Sigríður vitnar einnig til þess sem Hagstofan segir um niðurstöður sínar í rannsókn á launamun kynjanna, sem Hagstofan mat að væri 4,5% þegar leiðrétt hefði verið fyrir mælanlegum þáttum.

Hagstofan gefur þann fyrirvara að niðurstöður geti verið skekktar þar sem „ekki er hægt að leiðrétta fyrir áhrifum þátta sem skýribreytur ná ekki yfir þar sem aðeins er um að ræða eina mælingu á hverjum einstakling“, auk þess sem ekki sé tekið tillit til mismunandi einstaklingsáhrifa.

Ungar konur hjá hinu opinbera mæti „væntanlega aðeins fyrr“

„Á degi sem þessum er ánægjulegt að líta til þess árangurs sem konur og karlar hafa náð í jafnréttisbaráttu ýmiss konar. Það er mikilvæg forsenda framfara í þeim efnum að umræða sé málefnaleg og fyrirliggjandi gögn ekki mistúlkuð,“ skrifar Sigríður og bendir á það á lokum að ungar konur hjá hinu opinbera séu með hærri tekjur en karlar á sama aldri.

Þetta kemur fram á blaðsíðu 30 í skýrslu velferðarráðuneytisins og á við um aldurshópinn 18-27 ára. Það er eini aldurshópurinn þar sem konur hafa að meðaltali hærri laun en karlar í störfum fyrir hið opinbera.

„Þær mæta væntanlega aðeins fyrr til vinnu í fyrramálið!“ skrifar dómsmálaráðherra, um konur á þessum aldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert